24. nóvember 2016

Bókmenntaumfjöllun í jólabókaflóðinu (svona nokkurn veginn í hnotskurn – ég fékk þetta sent í tölvupósti, þetta kemur úr Morgunblaði dagsins í dag):

„Fléttan er vel úthugsuð og lesandinn fær innsýn í þankagang stjórnleysingja, sem aðhyllast djöflatrú. Sláturhús 5 eftir Kurt Vonnegut er nefnt til sögunnar, eflaust til þess að styrkja málstaðinn, en að sama skapi er skotið á góða fólkið, viðkvæmu ljóðskáldin, lýrísku smásagnahöfundana og mærðarlegu módernistana, „sem kjökra eins og sveitaprestar og skrifa stórkostlegar bækur sem enginn nennir að lesa en allir þykjast skilja“.

Sagan byrjar vel en heldur fer að kárna gamanið þegar kuklið og sálfarirnar ná yfirhöndinni. Hugsanlega höfðar þetta til þeirra sem trúa á spíritisma, en virkar frekar óraunverulegt hjá öðrum.“

… en virkar frekar óraunverulegt hjá öðrum!!! Þetta eru lokaorð dómsins, en fram að þeim hafði ekki verið vikið orði að kukli eða sálförum.

Guð minn góður. Ég þarf væntanlega ekki að taka fram um hvaða bók var verið að skrifa. Enska útgáfan myndi líklega kallast Black Magic. Ég held ég verði að halda upp á ársafmæli bloggsíðunnar (Kafla á dag) með því að gera krossmark. Ég veit bara ekki hvar ég á að gera krossmarkið. Ég ætla líka að skipta um nafn á síðunni. Nú á hún að kallast NÆSTI KAFLI. Ég treysti mér ekki lengur til að halda úti kafla á dag, jafnvel þótt ég hafi haft þann fyrirvara að stundum komi kaflarnir sjaldnar en það. „Næsti kafli“ merkir einfaldlega að hver kafli, eða hver færsla, sé næsta færsla, hvort sem daginn áður hafi birst færsla, eða daginn eftir muni birtast önnur færsla. Þetta held ég að henti mér afar vel, því það gerist svo oft að ég verð orðlaus, að minnsta kosti þegar kemur að því að tjá mig um eitthvað annað en það sem ég hef hugsað mér að setja í bók (og má þar af leiðandi ekki birta áður en að útgáfu bókarinnar kemur). Núna – bara rétt áðan – langaði mig til dæmis að tjá mig eitthvað um stjórnmálaflokkinn Viðreisn, en um leið og mig langaði til þess hvarf löngunin. Í staðinn ætla ég að rifja upp fyrstu færsluna sem birtist á þessu bloggi mínu, fyrir ári síðan; hún tengdist bókinni sem ég var að kynna á þeim tíma, Sögumanni:

G er eini stafur stafrófsins sem verður að orðinu ég, lesi maður hann aftur á bak.