9. nóvember 2016

„Ég vona að Donald vinni,“ sagði ég við Guðrúnu Eggertsdóttur í afgreiðslu Bókhlöðunnar um daginn; hún var á leiðinni til Chicago með syni sínum, og þau ætluðu að vera yfir kosninganóttina þar. „Þá verður kannski einhver hreinsun,“ bætti ég við. Og ég held ég hafi meint þau orð, að minnsta kosti á meðan ég var inni í Bókhlöðunni. Við Guðrún urðum samt sammála um að líklega myndi Hillary vinna. En nú hefur Donald unnið. Mér varð að ósk minni. Næsta ósk mín er sú að þessi úrslit skili sér inn í stjórnarmyndun á Íslandi; að hinum pólitískt ómögulega manni, formanni Sjálfstæðisflokksins, verði haldið frá ráðherrastóli, hvað sem það kostar. Nú þarf Ísland á pólitískum möguleika að halda, og hann er ekki bandarískur, heldur evrópskur. Mér líður eins og Ingvi Hrafn Jónsson sé orðinn valdamesti maður heims.