14. desember 2016

20150605_173104

Í Fréttablaði dagsins í dag er dómur eftir Magnús Guðmundsson um nýtt smásagnasafn Andra Snæs Magnasonar, Sofðu ást mín. Þar er fimm sinnum talað um einlægni. Ég held að með þessari umsögn sinni hafi Magnús „farið yfir um“, eins og Steinn Steinarr taldi að Kristmann Guðmundsson hefði gert með útgáfu bókar sinnar Félagi kona. Hvers vegna einlægni í skáldskap? Er hún góð? Verður skáldskapur betri ef skammturinn af „einlægni í tilfinningalífi“ sögumanns eða höfundar er meiri en minni. Ég leyfi mér að stórefast um það. En eins og ég nefndi, þá er það Magnús Guðmundsson sem skrifar dóminn um bók Andra Snæs, ekki Andri Snær sjálfur, þannig að ég ætla ekki að „dæma“ Andra Snæ fyrir einhverja óþarfa einlægni (eða skort á einlægni, sem Magnús segir reyndar á einum stað í dómnum að mætti vera meiri í texta Andra); og það má líka alveg fylgja, svo því sé haldið til haga, að ég hlakka í raun og veru mikið til að lesa þessar smásögur Andra Snæs. Sú tilhlökkun er alls ekki sprottin af því að mig langi til að „bragða á“ allri hinni meintu einlægni Andra Snæs – það er „einlæg“ tilhlökkun. Annars stenst ég ekki þá freistingu að líma inn í færsluna þessi fimm skipti þar sem minnst er á einlægni í dóm Magnúsar:

„Sofðu ást mín er ótvírætt ein per­sónulegasta og einlægasta bók Andra Snæs til þessa. Vel að merkja þá þýðir það ekki að höfundurinn hafi ekki lagt líf og sál í fyrri bækur, heldur finnur lesandinn hér meira fyrir per­sónu höfundarins og jafnvel einka­lífi með mun afdráttalausari hætti en áður.“

„… enda finnur lesandinn þar vel fyrir einlægni í tilfinn­ingalífi sögumanns og höf­undinum sjálfum.“

„Það er reyndar áberandi hversu miklu betur Andra Snæ tekst upp þegar málin virðast snerta hann persónu­lega og hann leyfir ein­lægri en sjálfsgagnrýnni rödd að njóta sín.“

„… og það veldur því að persónurnar verða ekki alveg jafn raunverulegar, einlægar og djúpar og í hinum sögunum. Þar með rennur tækifærið til samlifunar aðeins frá höfundi en það er í raun aðeins í þessari einu sögu.“

„Allt hefur það verið unnið af vandvirkni og metnaði en hingað til er ekki laust við undir­ritaður hafi á stundum saknað til­finningar og einlægni. En hér kveður við nýjan og persónulegri tón sem er óskandi að Andri Snær nái að vinna með áfram og virkja til góðra verka í komandi skáldverkum.“