20. desember 2016

Eitt það einkennilegasta – og sorglegasta – sem ég hef upplifað á þessu ári gerðist í hádeginu í gær. Ég var staddur í matvöruverslun, ávaxtadeildinni, þegar ungur starfsmaður búðarinnar, varla eldri en tvítugur, gekk upp að öðrum starfsmanni, stúlku á svipuðum aldri, og sagðist rétt í þessu hafa verið að fá „alveg hræðilegt símtal“, besti vinur sinn hefði dáið í nótt. Drengurinn var skiljanlega í losti. Mér var auðvitað ekki ætlað að heyra þetta, en ég komst ekki hjá því; og það fyrsta sem ég hugsaði um var hvort ég ætti að ganga upp að drengnum og votta honum samúð mína. Ég er enn að hugsa um hvort ég hefði átt að gera það. Ég er líka enn að hugsa um hvort ég eigi að segja frá þessu hér.