22. desember 2016

Af öllum þeim lúxusvandamálum sem hrjá mann þessa dagana er eitt sýnu verst: ég hef ekki getað hlustað á Bob Dylan síðan hann fékk nóbelsverðlaunin. Þetta vandamál er of djúpstætt til að ég treysti mér til að reyna að útskýra. En til allrar hamingju er til önnur tónlist en Bob Dylan. Sibelius hefur reynst betri en enginn, auk þess sem upprifjun á poppplötum Brians Eno frá miðjum áttunda áratugnum hefur verið góð. Before and after science sérstaklega. Svo eignaðist ég nýju plötuna með Tribe Called Quest, þá fyrstu sem þeir gefa út í átján ár, og hún nær ekki einungis að heilla mig, heldur er tíu ára einstaklingur á heimilinu sem er „hokked“. Getur hugsast að ég sé kominn í einhvern jóla- eða áramótagír – að vera að rifja svona upp einhverja neyslu á árinu? Ég ætti auðvitað frekar að tala um Sýrland, Berlín, Dónald – sem er auðvitað líka frekar mikið „áramóta“ – og þann óhug sem leitar á mann við tilhugsunina um að Björt framtíð muni leiða Sjálfstæðisflokkinn til valda; en nei, ég hefi tekið þann pólinn í hæðina að ræða tónlistarneyslu mína síðustu vikurnar. Ég ætti líka að segja frá minni gleðilegustu leikhúsupplifun (ævinnar), þegar ég sá No man´s land eftir Pinter í London fyrr í desember; en það gerist síðar. Ég verð nefnilega líka svo ergilegur þegar ég hugsa um þá reynslu, því hún rifjaði svo harkalega upp fyrir mér hina skelfilegu uppfærslu Þjóðleikhússins á Heimkomu Pinters á síðasta ári. Ég ætla að geyma mér að verða meira ergilegur yfir því þangað til á næsta ári, eða kannski bara fram yfir jól. En núna, þegar langþráður snjórinn er sestur á svalagólfið fyrir utan gluggann, og tréstyttan af Cervantes og bandaríski jólabangsinn horfa á mig af vinstra horni skrifborðsins, verð ég að setja einn popp-Eno á fóninn. Backwater (ef ég finn það lag á youtube):