30. desember 2016 (aukafærsla)

Nú, þegar búið er að velja popplag ársins, er ekki úr vegi að velja snörpustu fjölmiðlaorð ársins. Það vill svo til að þau voru látin falla í dag, á næstsíðasta degi þessa einkennilega árs, þannig að litlu munaði að þau næðu ekki inn sem kandidat fyrir snörpustu orð ársins; þau voru sögð í tilefni þess að fyrrverandi forsætisráðherra var kosinn Maður ársins á Útvarpi Sögu (Radio Saga – ef einhver enskumælandi er að lesa):

„Hann hefur sýnt og sannað að hann vill þjóð sinni vel og vék til hliðar úr stóli forsætisráðherra til þess að skapa frið í þjóðfélaginu.“

Svo má alveg hafa snörpustu orð nr. 2, en þau komu einmitt í beinu framhaldi af nr. 1, af sama tilefni: Maður ársins á Útvarpi Sögu:

„Sigmundur Davíð varð fyrir aðför að hálfu ríkisútvarps allra landsmanna og í raun var það aðför að stjórnkerfi landsins.“

Ég er allt að því stoltur yfir að búa í nágrenni höfuðstöðva Útvarps Sögu. Ég sé skiltið þeirra af svölunum. Gleðilegt ár, Útvarp Saga. Takk fyrir að vera þið. Njótið dagsins. Og Sigmundur Davíð – takk fyrir að vera þú. Og njóttu dagsins.