31. janúar 2017 (aukafærsla)

Vegna vandræðanna með Meisam Rafiei, íslenska landsliðsmanninn í Tae Kwondo, sem Dónald Trump vill ekki að komist til Bandaríkjanna til að taka þátt í Tae Kwondo-keppninni sem á að halda í Bandaríkjunum, segir nýskipaður utanríkisráðherra Íslands, sá sem skipaður var af „klaufanum“, nýja forsætisráðherranum á Íslandi, að íslensk stjórnvöld líti málið mjög alvarlegum augum, að þau ætli að ræða við „þar til bæra“ aðila, meðal annars bandaríska sendiráðið á Íslandi. Utanríkisráðherra bendir hins vegar á að á Íslandi sé enginn starfandi sendiherra Bandaríkjanna, eftir að Robert Barber fór af landi brott í kjölfar þess að ný ríkistjórn tók við völdum í Washington. Auðvitað er þetta alvarlegt mál, að Meisam Rafiei komist ekki til Bandaríkjanna til að taka þátt í keppninni – mér dettur ekki einu sinni í hug að grínast með það, jafnvel þótt hér sé „bara“ um að ræða íþróttakeppni, og að ég kannist ekki einu sinni við nafnið á íþróttinni – en það sem mig langaði til að nefna í þessu sambandi er að ég hef beinlínis fylgst með því þegar Robert Barber yfirgaf íbúð sína í Reykjavík. Hann bjó nefnilega við hliðina á mér. Ég fylgdist með því þegar myndirnar á veggjum íbúðarinnar voru teknar niður ein af annarri; þegar slökkt var á lömpunum á gólfinu (standlömpunum) og þeim pakkað niður; þegar slökkt var á sjónvarpinu í stofunni (sem gerðist í miðjum teiknimyndaþætti, sem ég býst við að hafi verið á Cartoon Networks); og þegar sófanum fyrir framan sjónvarpið var rennt í átt að útidyrahurðinni (hugsanlega lyftuhurðinni, því mér skilst að lyfta opnist beint inn í íbúðina). Svona gerast breytingarnar í heiminum: Robert Barber fer heim til sín – til Bandaríkjanna – og Meisam Rafiei er ekki hleypt inn í Bandaríkin til að keppa í Tae Kwondo. Ég sakna Roberts úr nágrenninu, jafnvel þótt ég hafi aldrei hitt hann – mér fannst bara eins og ég nyti góðs af öryggisgæslunni í kringum blokkina hans – og ég er að hugsa um að byrja að æfa Tae Kwondo. Og keppa, þegar ég er orðinn nógu góður. Sem gæti tekið einhvern tíma. En væntanlega verður þá búið að opna Bandaríkin aftur fyrir þeim sem iðka Tae Kwondo. Kannski er Tae Kwondo einhver stórhættuleg íþrótt?