1. febrúar 2017

Fyrir tveimur, þremur árum heyrði ég Víking Heiðar Ólafsson tala um tónlistargagnrýni í útvarpinu. Hann var að gagnrýna íslenska gagnrýni. Meðal þess sem hann benti á, og mér fannst mjög eftirminnilegt, var að sá dómur sem tónskáld og tónlistarmenn fá fyrir tónleika í þeim örfáu miðlum sem sinna gagnrýni – yfirleitt ekki nema einum eða tveimur, þá aðallega Fréttablaðinu og Morgunblaðinu – er oft eina heimildin um tónleika, það eina sem fólk í framtíðinni getur lesið um það sem gerðist á sviðinu. Víkingur tók nokkur dæmi um lítt uppbyggilega gagnrýni, og það vildi svo til að ég kannaðist við einhver þeirra dæma, meðal annars það sem Jónas Sen, gagnrýnandi Fréttablaðsins, sagði um eina tónleika, að hann hefði saknað þess að vera ekki með eyrnatappa með sér, eitthvað á þá leið, ég man það ekki nákvæmlega. (Ég ætti kannski að fletta því upp. Það sem Jónas Sen sagði orðrétt var: „Eyrnatappar hefðu átt að fylgja miðunum á tónleikana …“ Og fyrst ég er búinn að finna þetta á netinu, þá er ekki úr vegi að kippa því með sem Jónas rammaði inn í lokin sem „niðurstöðu“: „Grófur og óskáldlegur söngur gerði manni lífið leitt.“ Auðvitað er ekki rétt af mér að vera að rifja þetta upp, allavega ekki gagnvart tónlistarfólkinu, en mér finnst það réttlætanlegt í því skyni að sýna fram á aðferð Jónasar Sen sem gagnrýnanda. „… gerði manni lífið leitt.“ !!!) Ástæða þess að ég er að tala um þetta núna er nýr dómur Jónasar Sen í Fréttablaðinu í dag, um tónleika sem haldnir voru í Eldborg í Hörpu fyrir nokkrum dögum. Jónas gefur tónleikunum tvær stjörnur af fimm – allt í lagi með það, fyrst verið er að nota stjörnur á annað borð – en það sem mér finnst ekki allt í lagi – og auðvitað er það smekksatriði – er hvaða orð, eða orðbragð, Jónas notar til að „gagnrýna“ það sem fram fór á sviðinu. Ég er að hugsa um þetta út frá því að gagnrýni eigi að vera uppbyggileg – en líklega hugsar Jónas Sen ekki um gagnrýni á þeim nótum. Ég ætla að taka þrjú dæmi úr dómi dagsins: „Að vísu var einhver gáfuleg útskýring í tónleikaskránni, en hún varpaði ekki neinu ljósi á óskapnaðinn sem heyrðist.“ „Útkoman var fúl, en um leið viðeigandi endir á fremur misheppnaðri dagskrá.“ Og síðasta dæmið er hin innrammaða „niðurstaða“ Jónasar: „Ómerkilegir tónleikar þar sem fátt var um innblástur.“ Jesús minn. Óskapnaður, fúl útkoma, ómerkilegir tónleikar …!!! Ef einhver er ómerkilegur, fúll, misheppnaður, en umfram allt alveg laus við að vera gáfulegur, þá held ég að nokkuð ljóst sé hver sá einstaklingur er.