11. febrúar 2017

Dagur í lífi … Partur af degi í lífi … Faðirinn á heimilinu (pater familias, svona nokkurn veginn) vaknar snemma, hann les tvö dagblöð sem hann fór niður í lyftunni að ná í, hann myndar sér skoðun á því sem hann les (ekki samt alveg öllu), og styrkist í einbeittri skoðun sinni sem hann hafði á ákveðnu málefni, svo sendir hann tölvupóst með gömlum leikritstexta til manneskju sem vill kanna orðnotkun í verkinu (hann kann ekki að orða það betur; kannski vill hún bara telja orðin), og að því loknu les heimilisfaðirinn nokkur ljóð í Ljóðbréfi nr. 1, sem hann fékk sent í póstinum í gær (og ferjaði upp í lyftunni, alveg eins og dagblöðin); hann hrífst af nokkrum ljóðum í bréfinu (og undrast yfir einu þeirra, þar sem ljóðmælandinn hefur hvorki meira né minna en útsett eigin erfidrykkju, sem virðist eiga að fara fram á Hótel Borg við Austurvöll), og hann hrífst líka af því hvernig bréfið er uppsett og prentað, þetta er mjög svo fallegur gripur. En hvað gerir hann næst? Hann undirbýr dagskrá eftirmiðdagsins, sem felur í sér leik og starf, og hann undrast (aftur) hversu hátíðlegt orðalag hann notar yfir þetta allt saman. Og hann passar sig á að lýsa ekki því sem aðrir á heimilinu aðhafast, ekki nema með sjálfum sér – hann kann sig að því leyti. Svo fer hann inn á skrifstofu (hann er reyndar löngu kominn þangað) og setur í geislaspilarann Rock and roll með Velvet Underground (úr hvíta kassanum sem hann fékk í jólagjöf frá hinum á heimilinu):