15. nóvember 2017

Auðvitað hefur maður engan tíma til að vera að skrifa svona færslur, upptekinn sem maður er (nú heyri ég fyrir mér Guðberg Bergsson tala um líf og starf rithöfundarins: „Rithöfundurinn hefur ekki tíma til að fara í bíó. Rithöfundurinn situr heima og vinnur,“ osfrv.), en ég lét það eftir mér að fara í bíó í gærkvöldi, einn míns liðs – aðrir á heimilinu uppteknir að sinna sínum erindum, sem voru önnur en þau að fara í bíó á þriðjudagskvöldi – og ég fór í Bíó Paradís (hvaða annað bíó, liggur manni við að segja?). Ég sá Toni Erdmann, eftir Maren Ade, sem bæði skrifar og leikstýrir myndinni. Eftir að hafa lesið ýmislegt um þessa mynd, meðal annars það að einhverjir ameríkanar hafi í hyggju að gera ameríska útgáfu af henni (með Jack Nicholson), sem hljómar auðvitað eins kjánalegt og nokkuð getur hljómað, þá hafði ég svolitlar væntingar; en myndin fór – ég held mér sé alveg óhætt að segja það – langt fram úr þeim væntingum. Þetta er virkilega fín mynd. Og eins og með flest það sem maður hrífst af, þá er ekki alveg hlaupið að því að lýsa myndinni Tony Erdmann. Þess vegna ætla ég ekkert að vera að því. Mig langar bara til að sjá þessa mynd aftur, sem fyrst. Það hefur ekki gerst síðan ég sá Winter Sleep, eftir Nuri Bilge Ceylan (í Bíó Paradís), og The Great Beauty, eftir Paolo Sorrentino (af DVD-spólu!). Þeim myndum er heldur ekki svo einfalt að lýsa í fáum orðum. En af hverju nota ég þá ekki bara mörg orð (sérstaklega vegna þess að upp á síðkastið hef ég almennt farið að nota „fleiri og fleiri orð“)? Ég hef ekki tíma. Nú langar mig aftur til að „vitna“ í Guðberg Bergsson, en ég hef ekki heldur tíma til þess. Tíminn rétt nægir mér til að vitna í Blaise Cendrars (í þýðingu Jóns Óskars): Ég má engan tíma missa / Ég yrki. Nú verður maður heldur betur að passa sig á því að verða ekki fyrir áhrifum frá Toni Erdmann …