23. febrúar 2017

Ambassador_web

STARFSMAÐUR Í HLJÓMTÆKJAVERSLUN: Ég æpi ef þessi maður ætlar að koma hérna inn.

Stutt þögn.

Maður fyrir utan opnar dyr verslunarinnar og kemur inn.

SAMSTARFSMAÐUR (hvíslar): Ætlarðu ekki að æpa?

Stutt þögn.

Maður sem kom inn gengur í átt að afgreiðsluborðinu.

STARFSMAÐUR (æpir): ………..!!!!

Manni sem kom inn bregður illilega. Hann breytir um stefnu, og gengur í átt að hillum þar sem hljómtæki eru til sýnis.

STARFSMAÐUR: Ég sagði þér það.

SAMSTARFSMAÐUR: Hvað?

STARFSMAÐUR: Að ég myndi æpa.

Þögn.

 

Ef veður leyfir verð ég í hádeginu á morgun í ungverskri flugvél (sem ég efast þó um að sé framleidd í Ungverjalandi) á leiðinni til Litháen. Ég á að tala um skáldsöguna mína Sendiherrann á bókamessu í Vilníus á laugardag. Sagan, sem kom út fyrir rúmum tíu árum á Íslandi, gerist að miklu leyti í Litháen, og var, bara rétt í þessu, að koma út í litháískri þýðingu í Vilníus. En einhvern veginn finnst mér eins og ég sé ekki rétti maðurinn til að tala um þessa bók, sérstaklega ekki í Litháen. Ég verð rangur maður á réttum stað. Rétt eins og maðurinn hér að ofan, sá sem kom inn í hljómtækjaverslunina; hann var réttur maður á röngum stað – þannig sé ég það, að minnsta kosti. Starfsmaður hjá útgáfunni sem gefur út Sendiherrann í Litháen ráðlagði mér í pósti rétt áðan að koma með regnfrakka með mér – aftur, eins og hún orðaði það – því það væri „blautt veður“ í Vilníus þessa dagana. Ég kíkti á veðurspána á vef BBC, og þar vilja þeir meina að næstu daga verði í kringum frostmark í Vilníus, og rétt yfir, og ofankoma: slydda eða snjór. Ég hefi því ákveðið að fara ekki í regn- eða rykfrakka, heldur sailorjakkanum mínum, sem er hlýrri en regn- eða rykfrakkinn. Ég þori ekki fyrir mitt litla líf að koma með regn- eða rykfrakka til Vilníus – ekki aftur. Samt var það ekki ég sem lenti í því að frakkanum mínum var stolið á veitingastaðnum í Vilníus – það var annar. Og þar með var sá frakki ekki minn frakki. En þar sem ég er líka annar – eins og reyndar Frakki nokkur, mun þekktara ljóðskáld en ég – þori ég ekki að taka sénsinn.