26. febrúar 2017

Trúvillingurinn ég tók daginn snemma í Vilníus; hann fór í messu í stóru hvítu dómkirkjunni við torgið í botni Gediminas Prospektas. Það var falleg snjókoma fyrir utan, og sömuleiðis tónlistin innandyra. Þegar ég hafði fengið nægju mína af Orðinu og Tónlistinni, gekk ég út, hægum skrefum, og þegar ég leit síðasta sinni (að þessu sinni) inn eftir kirkjuskipinu sá ég haltrandi mann ganga í átt að altarinu, og hugsaði með mér að líklega yrði þessi maður ekki lengur haltrandi þegar hann gengi til baka. En ég hafði ekki tíma til að fylgjast með því; ég þurfti að fara aftur upp á hótel til að græja mig fyrir leiðsagnartúrinn sem ég fer í kl. tólf. Á hinni risavöxnu bókamessu í gær áritaði ég svo mörg eintök af Ambasadorius að ég hefði getað ælt. En ég ældi ekki. Að lokinni messunni (bókamessunni, það er að segja) fór ég með því góða fólki sem sér um mig hérna í húsnæði bókaútgáfunnar Kitos Knygos (Aðrar bækur); við vorum þrjú sem mættum þangað til að byrja með; en tíu mínútum síðar birtist enn ein manneskjan utan af götunni, og öðrum tíu mínútum síðar aðrar þrjár manneskjur. Svo var allt í einu komið rauðvín á borðið, og heil flaska af búrbón; og það leit út fyrir að það yrði drukkið svo mikið að ég hefði getað ælt. En ég staldraði ekki lengi við – ældi ekki heldur – því ég fann á mér að ég myndi óvart lenda í messu morguninn eftir, og ekki vildi ég lykta illa innan um allt sunnudagsfólkið. Á litháísku segir maður atsjú ef maður vill segja takk.