10. mars 2017

Ég fékk um daginn hugmynd að stuttmynd. En vegna þess að ég hef ekki í hyggju að leggja fyrir mig stuttmyndagerð, þá datt mér í hug að nota hugmyndina sem Næsta kafla. Mér fannst hún ekki beinlínis virka sem saga (og heldur ekki ljóð), en með því að segja frá henni er ég auðvitað að gera mér vonir um að stuttmyndaframleiðendur og -leikstjórar landsins (og annarra landa) muni lesa þetta og hugsa með sjálfum sér: Þetta er kjörið efni í stuttmynd. Búa til mynd úr þessu. Hugmyndin er svona: Eldri kona (má vera á óræðum aldri, jafnvel ung) ræður til sín smið til að lagfæra eitthvað hjá sér, eða festa eitthvað upp – að minnsta kosti krefst verkefnið þess að notaður sé rafmagnsbor. Þegar smiðurinn byrjar að bora fer konan inn í svefnherbergið sitt, og lokar að sér. Að nokkrum mínútum liðnum berst inn til hennar hljóð (ofan á borhljóðið) sem bendir til þess að eitthvað hafi dottið í gólfið, en hávaðinn úr bornum heldur áfram; og þegar alllangur tími hefur liðið, án þess að nokkurt lát verði á hinu leiðinlega hljóði úr bornum, ákveður konan að fara fram og athuga með stöðu mála. Þegar hún kemur inn í stofuna sér hún að smiðurinn er í einkennilegri stellingu; hann líkt og krýpur, með höfuðið upp við vegginn; og það sem hún skilur síst í er að maðurinn borar án afláts í gólfið (þar sem alls ekki stóð til að bora). Hún gengur að manninum, og spyr hverju sæti – hún þarf að tala nokkuð hátt til að yfirgnæfa borinn – en hún fær ekkert svar. Þá bankar hún létt í öxl hans, og lítur framan í hann; og hún gerir sér strax grein fyrir að ekki er allt með felldu. Það tekur hana ekki langan tíma að komast að því að smiðurinn er látinn, og að hönd hans hefur stirðnað utan um gikkinn á bornum. Henni bregður svo illilega við þessa uppgötvun að ósjálfrátt hleypur hún í burtu, og hægir ekki á sér fyrr en hún er komin út úr íbúðinni, og út á gangstétt. Þegar þangað er komið er hávaðinn frá bornum eðlilega nokkuð lægri í eyrum hennar en hann var inni í íbúðinni, en hljóðið er enn mjög óþægilegt – af svip hennar að dæma er það mun óþægilegra úti á stétt en það var inni í stofunni. Konan horfir á stofugluggann, og þegar nágranni hennar, sem á leið hjá, kemur upp að henni, bendir hún með vísifingri í átt að húsinu, en kemur ekki upp orði þegar nágranninn spyr hvað sé að gerast. Vegna þess að þetta myndi vera stuttmynd, er ekki ástæða til að hafa þetta lengra. Þessu lýkur því með því að konan stendur úti á stétt og bendir á stofugluggann hjá sér, eins og frosin. Mér dettur líka í hug, út frá því að myndin verði framleitt af útlendingum, að hún gæti kallast Dead Man Drilling. Eða Bráðkvaddur maður borar – bara til að halda stuðlasetningunni.