17. mars 2017

Auðvitað ætti ég að senda þá músík sem ég er um það bil að fara að setja hér í Næsta kafla á Ráðlagðan jazzskammt, sérstaklega vegna þess að umsjónarmaður Ráðlagðs jazzskammts (erfitt orð í þágufalli) átti afmæli í gær. Mér finnst bara að ég þurfi að vanda mig betur þegar kemur að því að senda tóndæmi á Ráðlagðan jazzskammt. Ekki „vanda“ í merkingunni vanda valið, heldur vanda orðin sem fylgja valinu. Auk þess var ég búinn að lofa Ráðlögðum jazzskammti að búa til einhvers konar lista yfir sjö eða átta „bestu plöturnar“ – kannski áttu þær að vera fimm eða sex – og ég hefi því ákveðið að næsta sending mín á Ráðlagðan jazzskammt verði af þeirri tegund: „bestu plöturnar“. Vonandi gef ég mér tíma í það verkefni sem fyrst. En þá er komið að tónlist þessa föstudags, og hún er ekki af verri endanum, eins og sagt er. (Eða segir maður svoleiðis: af verri endanum? Allt í einu finnst mér eins og þar sé á ferðinni Bibba á Brávallagötunni.) Lagið er eftir básúnuleikarann Grachan Moncur III, og hljómsveitin sem leikur það er heldur ekki af verri kantinum (er það ekki einmitt frekar af verri kantinum en verri endanum?): Lee Morgan, trompett, Jackie McLean, alt saxófónn, Bobby Hutcherson, víbrafónn, Bob Crenshaw, bassi, og hinn óviðjafnanlegi Tony Williams á trommur. Plús auðvitað Grachan Moncur þriðji. Eins og ég nefndi, þá ætla ég ekki að vanda mig of mikið við að segja eitthvað í kringum þetta, enda ætti ég þá frekar að senda þetta á Ráðlagðan jazzskammt en Næsta kafla, en allavega, þá kemur lagið hér: Air Raid (hljóðritað 21. nóvember 1963 í New Jersey):