21. mars 2017

Er Dagur ljóðsins í dag? Eða kannski bara Valentínusardagurinn? Dagur rafrettunnar? Dagur dagsins í dag? Ég sá það einhvers staðar að í dag væri Dagur ljóðsins, og þegar ég athugaði annars staðar (á netinu), til að sannreyna þetta, þá virtist það sama vera uppi á teningnum þar, að í dag væri Dagur ljóðsins. Auðvitað liggur þá beint við að pikka inn ljóð eftir Dag Sigurðarson, eða kannski bara eftir mig sjálfan, en ég ætla að leita annað; ég ætla að fara í ljóðabók sem kom út á síðasta ári, því í þeirri bók er ljóð sem kallast Ferðahugur, og ég er einmitt sjálfur „í ferðahug“ þessa stundina (er að hugsa um að hjóla í hádeginu í Þjóðarbókhlöðuna; ég þarf að ná í ákveðna bók þar). Ljóðabókin sem ég minntist á er Síðasta vegabréfið eftir Gyrði Elíasson, og ljóðið sem ég ætla að birta úr henni kallast, eins og áður sagði,

 

FERÐAHUGUR

hugsað til Múhameðs

 

Ég hef aldrei komið á Dalatanga,

en ef ég kæmi á Dalatanga,

mundi ég líklega setjast að á Dalatanga,

því það er löngu vitað að á Dalatanga

er febrúar mildastur mánaða,

og það er einmitt það sem við þurfum,

bæði á Dalatanga og annarstaðar,

að febrúar sé mildastur á Dalatanga.

Ég er alltaf á leiðinni á Dalatanga,

því ég veit að Dalatangi

er einstaklega heimakær, og

kemur ekki til mín