4. mars 2017

Næsta kafla hefur borist fyrirspurn frá lesanda. Reyndar tvær. Fyrri spurningin var sú hvort ég, umsjónarmaður bloggsins, hefði í raun og veru verið í Litháen, eins og mjög sterklega var ýjað að í færslum frá 25. og 26. febrúar. Og sú seinni: hvort ég hafi sjálfur setið við tveggja manna borðið sem ég birti myndina af 28. febrúar. Svarið við fyrri spurningunni er já, en þeirri seinni nei. Myndin er tekin inni á niðurgröfnum veitingastað við Stykliu-götu í gamla bænum í Vilníus. Staðurinn er reyndar svo mikið niðurgrafinn að tröppurnar niður minntu mig helst á katakomburnar í París. Ég fór ekki til að borða þarna, heldur var mér einungis sýndur staðurinn, af manni sem fór með mig og þýðandann minn og útgefanda í mjög svo fróðlega göngu um borgina. Við þurftum sérstakt leyfi til að skoða staðinn; þetta var upp úr hádegi, og ekki opnað fyrr en um kvöldið. Á sovéttímanum var þessi veitingastaður helst sóttur af fólki (þá aðallega mönnum, býst ég við) úr efri lögum jafnaðarstefnunnar, og þá helst mönnum sem stunduðu veiðar á villtum dýrum – þetta var víst þeirra staður. Þeir hafa komið þarna til að fá sér steik. Jafnvel af dýrum sem þeir drápu sjálfir. Þangað til fyrir nokkrum árum stóð uppstoppaður björn frá Síberíu á miðju gólfinu, en hann var fjarlægður vegna þrýstings frá dýraverndunarsamtökum. Honum var hent. (Sem mér fannst reyndar óþarfi.) Eins og myndin hér fyrir ofan sýnir, þá hangir enn uppi á einum veggnum haus af birni; ég ákvað að taka mynd af honum, en auðvitað hefði ég helst viljað taka mynd af birninum sem var hent. Svo tók ég mynd af tveggja manna borðinu, sem hefur þá sérstöðu að þeir, eða þau, eða þær, sem sitja við það, horfa báðir / bæði / báðar á vegginn á móti: þeir / þau / þær sitja hlið við hlið, og ekkert nema múrveggur á móti. Mér fannst að þetta borð hlyti að eiga heima í einhvers konar skáldverki eða bíómynd – kannski helst draumi – frekar en á raunverulegum veitingastað. Og þess vegna tók ég mynd af því. En talandi um drauma, þá dreymdi mig svolítið fyrir nokkrum dögum, ætli það hafi ekki verið nóttina eftir að ég kom heim frá Litháen. Hefði ég skrifað drauminn niður um leið og ég vaknaði (eða áður en ég vaknaði), þá hefði ég munað hið samhengislausa samhengi hans, en núna, nokkrum dögum síðar (og nokkrum draumum), man ég bara að ég hitti Björk Guðmundsdóttur í draumnum; hún var einhvers staðar úti á götu, ég man ekki hvar, og var um það bil að fara að stíga inn í nýjan bíl sem hún hafði keypt: glænýjan Trabant, sem minnti helst á einhvers konar geimfar. Mjög í anda Bjarkar, fannst mér. Annars staðar í draumnum var rithöfundurinn Huldar Breiðfjörð farinn að stunda eiturlyfjaviðskipti; mér var bent á það af öðrum rithöfundi, Hallgrími Helgasyni, sem sjálfur var eitthvað hálf undrandi á mér að hafa ekki komið auga á að Huldar væri á kafi í þessum ólöglegu viðskiptum. Hallgrímur kom reyndar meira við sögu í draumnum, því við tveir vorum saman í einhvers konar hljómsveit sem var á leiðinni að fara að spila fyrir norðan, á Akureyri. Vandamálið var bara það að Þór Eldon, sem átti að teljast vera meðlimur í hljómsveitinni, nennti ekki að koma með, og við Hallgrímur vissum í raun ekkert hvað við áttum að gera, því við höfðum ekki æft eitt einasta lag, við vissum í raun ekkert hvað við ættum að spila á Akureyri. Svo var draumurinn ekki lengri. Held ég að minnsta kosti ekki. En það er sem sagt svona sem ég eyði nóttunum hér í Reykjavík 105: mig dreymir tónlistarfólk. Og talandi um tónlistarfólk (og bjarndýr), þá hef ég lengi ætlað mér að skrifa einhvers konar endurminningarit um ákveðna kafla í lífi mínu, og hef alltaf séð fyrir mér að fyrsti kafli þeirrar bókar muni gerast í Bearsville, í New York-fylki í Bandaríkjunum, þar sem Sykurmolarnir voru að semja, æfa og taka upp síðustu plötuna sína. Þetta var uppi í sveit, rétt hjá Woodstock (Woodstock hátíðarinnar frægu; það eru til fleiri Woodstock en það), og við, hljómsveitin (og Sjón, sem var þarna með okkur) bjuggum í tvílyftu húsi rétt hjá hlöðunni þar sem við æfðum. Sjálft stúdíóið var síðan rétt hjá. Skammt frá húsinu sem við bjuggum í var þéttur skógur. Og einn daginn var haldin grillveisla. Það var held ég plötufyrirtækið sem bauð. Þór Eldon vill meina að einhverju ógurlega fínu kjöti hefði verið flogið alla leið frá New York-borg, til að setja á grillið, en ég man ekki eftir neinni flugvél. Og ekki neinu sérstöku kjöti. Enda skiptir það ekki máli. Daginn eftir grillveisluna, þegar við gengum út úr húsinu, ábyggilega frekar ryðguð eftir gleðskapinn kvöldið áður, sáum við björn við jaðar skógarins; hann stóð við öskutunnu sem þar var, og var að gramsa í matarleifum gærdagsins. Við tókum vídeómynd af birninum. Þetta var svartbjörn. Norður-amerískur skógarbjörn. En nú man ég ekki hvort við vorum eitthvað hrædd. Kaflinn sem segir frá þessu atviki í bókinni minni á að heita Björninn leitar að æti. Ég er jafnvel að hugsa um að láta bókina hafa þann titil. Ef ég skrifa hana. Og talandi um bækur, þá var mér sagt frá því í gær að um næstu helgi eigi að vera spjall um nokkrar af bókunum mínum á Hugvísindaþingi í Háskólanum. Mér finnst það auðvitað mjög spennandi, en um leið svolítið erfitt eða snúið, því ég get ekki ákveðið hvort ég á að mæta sjálfur. Mig langar til að fara og hlusta, ekki síst vegna þess að mér finnst ég græða á því þegar annað fólk segir mér um hvað bækurnar mínar eru; en svo finnst mér líka eins og ég verði „fyrir“, ef ég mæti – eða trufli. En hvort sem ég fer eða ekki, þá ætla ég að hjálpa við að auglýsa spjallið:

http://hugvisindathing.hi.is/malstofur/madur-ad-okkar-skapi/