11. apríl 2017

Það hlaut að koma að þessu:

http://www.visir.is/g/2017170419904/finnst-skelfilegt-ad-bf-hafi-leitt-sjalfstaedisflokkinn-til-valda

Ég átti samt aldrei von á að eftirfarandi myndi gerast; ég hafði bara ekki ímyndunarafl til að láta mér detta það í hug, svo óhugsandi er þetta einhvern veginn, og í raun alveg jafn fjarstæðukennt og að … nú dettur mér bara ekkert í hug sem er jafn fjarstæðukennt og þetta:

http://www.visir.is/g/2017170409457/barry-manilow-kemur-ut-ur-skapnum

Enskur hljóðmaður, sem sá um sviðshljóð fyrir Sykurmolana, sagði mér einu sinni sögu af Barry Manilow, sem hann vann fyrir (eða hóf störf fyrir) áður en hann „hoppaði upp í sæng“ með Sykurmolunum íslensku. Þegar hljóðmaðurinn skrifaði undir samninginn við umboðsskrifstofu Barrys um að vinna fyrir hann, var þar ákvæði þess efnis að hljóðmenn á sviðinu mættu aldrei, ekki undir neinum kringumstæðum, ávarpa Barry á meðan þeir væru að undirbúa tónleikana; öll samskipti við söngvarann þyrftu að fara í gegnum aðra aðila (sem ég man ekki lengur hverjir áttu að hafa verið). Hljóðmennirnir (og þá væntanlega annað „óbreytt“ starfsfólk í kringum apparat Barrys Manilow, eins og rótarar og ljósamenn og svoleiðis) máttu heldur ekki horfa í átt að stórstjörnunni. (Svolítið erfitt að skilja þetta, sérstaklega hvað varðar ljósamennina.) Nú, svo er ekki meira með það. Hljóðmaðurinn enski (sem ég man ekki heldur hvað heitir; ég þarf að láta Einar Örn rifja það upp fyrir mér) byrjaði að vinna að hljóðinu fyrir Barry, en á fyrsta degi varð honum á, ekki bara að horfa í áttina að „aðal“, heldur líka ávarpa hann (væntanlega hefur hann talið sig þurfa að spyrja um eitthvað í tengslum við hljóðið, mér dettur í hug að hann hafi viljað vita hvort nógu hátt væri stillt í mónitórunum, eitthvað í þá áttina). Hann einfaldlega gleymdi öllum ákvæðunum í samningnum sem sneru að samskiptum „óbreyttra“ og Barrys. Og hann var rekinn. Á staðnum. Sendur heim. Það fylgdi ekki sögunni hvað gerðist með hljóðið á tónleikunum það kvöld, en einhvern veginn hlýtur það að hafa reddast – í þessum bransa reddast allt einhvern veginn á endanum, eða gerði það (minnir mig) alltaf þegar ég starfaði í bransanum. Mér dettur í hug í þessu sambandi, út frá fréttinni á vísi punktur is um Barry og skápinn sem hann kom út úr, að óvitlaust hefði verið að hafa hann innan í einhvers konar skáp á sviðinu þegar hann var að „testa sándið“. Að honum hefði einfaldlega verið rúllað inn á sviðið í skáp á hjólum, þannig að enginn „óbreyttur“ hefði þurft að eiga á hættu að horfa í áttina að þeim gamla (sem var náttúrlega ekki gamall þá). Svo hefði Barry einfaldlega komið út úr skápnum þegar tónleikarnir byrjuðu. En núna er hann allavega kominn út úr skápnum – og ég skil það ekki. Það er ekkert sem benti til þess að Barry Manilow væri gay.