14. apríl 2017

Sögusvið Fjarverunnar: Akureyri

Fyrir tveimur árum sat ég þar sem ég sat rétt áðan, á Bláu könnunni í Hafnarstræti á Akureyri, og kepptist við að skrifa ákveðið músíkprógramm sem ég var með í Ríkisútvarpinu. Á meðan (fyrir tveimum árum) var samferðafólk mitt (það nánasta, það er að segja) að sinna snjóíþróttum í hlíðum Hlíðarfjalls. Í dag var erindi mitt á kaffihúsið aftur á móti annað (fyrir utan auðvitað að kaupa veitingar): að lesa yfir það sem ég er búinn með af skáldsögu sem á að koma út í haust. Sú skáldsaga er eiginlega hálfgert músíkprógramm líka, eins og verkefnið fyrir Ríkisútvarpið. En þetta er ekki það sem ég ætlaði að tala um hér, á löngum föstudegi í Norðrinu. Þegar ég sat inni á Bláu könnunni í dag, sem er eftirlætiskaffihús mitt á Norðurlandi, hver kemur þá inn á staðinn nema prestur sem ég þekki í sjón (ekki að öðru leyti). Að vísu hitti ég líka Bjarna Harðarson og Elínu (frá Selfossi – hvað voru þau að gera hér í Norðrinu, þegar hlýtur að vera ansi brýnt að sinna kaffihúsinu þeirra í Suðrinu, núna um páskana?), og ég talaði svolítið við þau Bjarna og Elínu – þeim fannst ábyggilega heldur fyndið að sjá rithöfund af höfuðborgarsvæðinu vera að vinna á kaffihúsi (mér fannst það sjálfum heldur fyndið). En presturinn. Ég talaði ekkert við hann (hann, sem er reyndar hún) á meðan við sátum inni á Bláu könnunni, en svo vildi svo til að við fórum samtímis út af Könnunni (út í kuldann í Hafnarstrætinu), og þá notaði ég tækifærið, vatt mér að honum (henni), og spurði glaðhlakkalega: „Prestur á föstudeginum langa inni á kaffihúsi?“ Og hann (hún) svaraði: „Þú lofar að segja ekki neinum.“ En núna er ég búinn að segja frá því.