20. apríl 2017

Rugl dagsins: Sumardagurinn fyrsti.

Sögusvið Fjarverunnar: Hlemmur og nágrenni

Nú rifjast upp fyrir mér að ég skrifaði einu sinni útvarpsleikrit sem kallaðist Sumardagurinn fyrsti, og það var flutt í Ríkisútvarpinu, þó ekki á sumardeginum fyrsta (ef ég man rétt). Eggert Þorleifsson lék ekki í því. Það að hinn íslenski sumardagur nr. 1 sé rugl, eins og staðfestist þegar horft er út um gluggann í augnablikinu, eða flett upp á vedur.is, var ekki beinlínis eitt af þemum þessa útvarpsleikrits, en þó gerðist leikritið á föstudegi en ekki fimmtudegi; aðalpersónan (sem Randver Þorláksson lék) tók feil: hann hélt að það væri sumardagurinn fyrsti, en auðvitað hafði hann rangt fyrir sér, því sumardagurinn fyrsti á Íslandi er alltaf á fimmtudegi. Íslenska sumarið hefst alltaf á fjórða degi vikunnar. Og þá er gefið frí í skólum og opinberum stofnunum, til að námsfólk og skrifstofufólk geti farið upp í Heiðmörk eða sett eldhúskollinn út á gangstétt og notið þess sem þriðja árstíð ársins hefur upp á að bjóða. Sem er fjögurra stiga hiti í Reykjavík (á hádegi), og tveggja stiga frost í Bolungarvík. Það þarf að endurskoða þetta með sumardaginn fyrsta, eins og ég minntist á hér í gær. Kannski felst lausnin í því að hafa hann á öðrum degi en fimmtudegi? Ef til vill á mánudegi. Eða bara sjálfum hvíldardeginum, til að fæstir þurfi að fara út fyrir hússins dyr, og geti bara hreiðrað um sig undir sæng (og hlustað á útvarpsleikrit eða lesið í „góðri“ bók).