22. apríl 2017

Það er með ólíkindum hversu líkir þeir B og V eru. Ég myndi birta af þeim myndir ef mér fyndist í lagi að láta V vita af þessum ólíkindalegu líkindum – B er náttúrlega ekki lengur á lífi (náttúrlega segi ég, vitandi að fólk hefur ekki hugmynd um við hverja er átt) – ég er meira að segja búinn að finna réttu myndirnar af þeim B og V til að renna stoðum undir þessa fullyrðingu mína. En mér finnst ekki rétt að vera að senda þetta út á veraldarvefinn – ég þekki V ekki nógu vel til að vita hvernig hann tæki þessu. Svo er auðvitað annað: í sumum tungumálum er B og V í raun sami stafurinn. En í staðinn fyrir myndir af V og B ætla ég að láta fylgja færslunni hina klassísku mynd af fyrrverandi forseta Íslands og Benedikt sextánda – sú mynd er ekki síður með ólíkindum, þótt aldrei verði annarri mynd líkt við hana.

Svo er ekkert annað eftir en að gleðjast yfir því að bók Halldóru Thoroddsen, Tvöfalt gler, skyldi fá evrópsk bókmenntaverðlaun. Maður gleðst vegna þess hversu fín bókin er, en það kætir mann líka – á allt annan hátt – að enginn útgefandi vildi sjá þessa sögu á sínum lista, ekki fyrr en tímaritröðin 1005 tók til starfa, þá var sagan loksins prentuð, og síðan gefin út á almennum markaði af bókaútgáfunni Sæmundi, eftir að sagan fékk Fjöruverðlaunin.