26. apríl 2017

Um daginn var ég beðinn um að lesa upp ljóð á einhvers konar karaókíljóðakvöldi á Gauki á Stöng núna á föstudaginn. Ég sem hélt að Gaukur á Stöng héti eitthvað allt annað í nútímanum. Hét hann ekki Halló eða Bravó, eitthvað svoleiðis? Nei, hann heitir Gaukur á Stöng. Eða Gunnar á Stöng, eins og Siggi, sá sem vann með mér á Bögglapóststofunni, kallaði hann einhvern tíma (án þess að reyna að vera fyndinn). Hann sagði reyndar ekki Gunnar á Stöng – ég hefi gleymt hvað það var sem hann sagði. En allavega fór hann rangt með nafnið, hann Bögglapóststofu-Siggi. En ég ætlaði ekki að tala um hann. Ég ætlaði að tala um ljóðakvöldið. Prógramm upplesara á föstudaginn á að felast í því að lesa upp tvö eigin ljóð, og önnur tvö eftir annan höfund. Þetta hefur valdið mér miklum heilabrotum (jafn illa og mér er við það orð, heilabrot). Ég er kominn langleiðina með að ákveða hvaða ljóð ég muni lesa eftir sjálfan mig, en það er erfiðara að velja hin ljóðin. Ósjálfrátt verður mér alltaf hugsað til Vitezslavs Nezval, þegar kemur að því að hugsa um útlensk ljóðskáld, en ég er samt að hugsa um að finna eitthvað annað að þessu sinni. Mér datt líka í hug Tristan Tzara – ég las upp ljóð eftir hann í veislu um daginn, reyndar bara fyrsta erindið af þremur, úr ljóði hans Dada-söngur (drekkið vatn blátt, osfrv.) – en aftur hugsaði ég með mér að ég ætti að finna eitthvað annað en Tristan Tzara til að lesa á föstudaginn. Ég bara get ekki ákveðið hvað það skal verða. Á meðan – líka til að leyfa þessum miðvikudegi að líða við eitthvað annað en að velta þessu fyrir mér endalaust – langar mig til að pikka inn þýðingu Gyrðis Elíassonar á ljóði Nezvals, Klukkan í gamla gyðingahverfinu:

 

Meðan tíminn geysist burt á Príkopy-stræti

einsog hjólreiðakappi sem heldur að hann geti sigrað vél dauðans

þá ert þú einsog klukkan í gyðingahverfinu með vísana sem ganga rangsælis

ef dauðinn kæmi mér að óvörum mundi ég deyja sem sex ára gamall drengur