5. apríl 2017 (aukafærsla)

Í Fréttablaðinu í dag spyr Kristján Guy Burgess sig þeirrar spurningar – og beinir henni þar með til lesenda blaðsins – hvað það sé sem forsætisráðherra Íslands geri í vinnunni sinni. Það hlýtur að vera eðlileg og réttmæt spurning, ef haft er í huga að Bjarni Benediktsson á að vera ráðherra landsins síns, en ekki bara flokksins (eða samtakanna) sem hann stýrir. Kristján Guy undrast yfir því að enn hafi Bjarni Benediktsson ekki hitt neina framámenn annarra þjóða, og notar þar til samanburðar heimsóknir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar út í heim, og samtöl hans við erlenda ráðamenn, þegar hann var forsætisráðherra. Kristján nefnir að Benedikt Jóhannesson sjái um efnahagsmál Íslands, og Guðlaugur Þór Þórðarson um varnar- og öryggismál. En eftir stendur spurningin (sem er yfirskrift pistilsins): Hvað gerir Bjarni? Í annarri grein í Fréttablaðinu í dag, sem vill svo til að er á sömu opnu og grein Kristjáns, spyr Kári Stefánsson Bjarna Benediktsson ýmissa spurninga, meðal annars út frá hinu „grunsamlega fálæti“ sem Bjarni Benediktsson sýnir af sér í tengslum við … kannski ekki í tengslum við allt, en að minnsta kosti óþægileg mál sem snerta bankasölu og flokkinn hans, og önnur sérhagsmunamál tengd Bjarna og flokknum hans; og svo fer Kári að tala um að ekki sé gott fyrir „pólitíkus að hrökkva í vörn“, eins og við vitum öll (nema hugsanlega kjósendur Sjálfstæðisflokksins) að Bjarni er gjarn á að gera þegar gengið er á hann í tengslum við óþægileg mál sem varða flokkinn hans og fjölskyldu, og hann sjálfan (og fjármál tengd öllum þessum aðilum: flokknum hans, fjölskyldu og honum sjálfum). Mér hefur alltaf fundist það furðuleg tilhugsun að þessi maður, Bjarni Benediktsson, skuli vera orðinn forsætisráðherra Íslands. Við höfum Guðlaug Þór Þórðarson (úr sömu samtökum og Bjarni) sem varnarmálaráðherra, og frænda Bjarna, Benedikt Jóhannesson, sem efnahagsmálaráðherra; en einhvern veginn er enginn í ríkisstjórn Íslands sem með réttu (eða góðri samvisku), sbr. grein Kristjáns Guy, er hægt að kalla forsætisráðherra. Mér dettur í hug í því sambandi nýr titill á Bjarna Benediktsson – varnarráðherra.