11. maí 2017

Næsta kafla hefur borist bréf. Eða umsjónarmanninum öllu heldur, því bréfið var ekki stílað á „Kaflann“, ekki þannig lagað. Bréfið kom frá „eiturlyfjasalanum“, þeim sem ég sagði einu sinni frá hér í „Kaflanum“, þeim sem mig dreymdi að hefði verið að selja eiturlyf. Ég hef þó vit á að nefna ekki nafn hans, því ég geri mér grein fyrir að eftirlitsstofnanir og yfirvöld hafa ekki síður en ég og þú aðgang að öllu því sem fer á alheimsnetið. Auðvitað er minnsta mál fyrir fíkniefnalögregluna að skrolla sig í gegnum þessar færslur mínar, ef hún hefur áhuga á að vita hver hinn meinti eiturlyfjasali er – og verði henni að góðu. En þá mun hún líka komast að því að hin meinta eiturlyfjasala átti sér stað í draumi bloggarans. Og ekki ætla þeir hjá lögreglunni að byggja einhverja rannsókn á „draumgögnum“. En aftur að bréfinu frá hinum „meinta“ (sem héðan í frá verður nefndur Hinn meinti). Hinn meinti hafði lesið bloggið mitt, og það rifjaðist upp fyrir mér, þegar ég las frá honum bréfið, að hann hafði lesið bloggið áður (einmitt þegar ég sagði frá draumi mínum um eiturlyfjasalann). Í gær eða fyrradag sagði ég frá því að ég hefði horft á bíómyndina Once upon a time in Anatolia eftir Nuri Bilge Ceylan, og Hinn meinti fór að segja mér frá kynnum sínum og upplifun af myndum Nuris; og hann sagði mér líka frá öðrum leikstjóra, írönskum, sem ég ætla að bíða með að nefna, þangað til ég hef sjálfur horft á mynd eftir hann. Best að vera ekki að dreifa of miklum gögnum án þess að þekkja þau. En hvað um það: ég fékk sem sagt bréf frá Hinum meinta; hann sendi það frá Reykjavík í Reykholtssveitina, og ég þarf auðvitað ekki að taka fram að bréfið var fljótara að berast en ég er að skrifa þessa færslu (og er ég þó fljótur að því). Eitthvað fleira minntist Hinn meinti á í bréfinu sínu, og ég á eflaust eftir að víkja að því síðar – mig langaði bara til að segja frá þessu til að láta vita að ég er alls ekkert einmana hér í fásinninu: á meðan maður á von á bréfasendingum er eins og beinlínis sé fjölmenni í kringum mann. En þá er komið að ferðalagi dagsins. Því allir dagar fela í sér að minnsta kosti eitt ferðalag. Og ekki dugir endalaust að segja frá einhverjum myndum sem maður horfir á, eða bókum sem maður les (eða horfir á). Ég ákvað að fara út með ruslið. Sem hér í sveitinni er meira en að fara niður einhverjar hæðir í einhverri lyftu, og út í sorpgeymslu. Hér eru engar lyftur eða eiginlegar sorpgeymslur. Hér í Síðunni þarf maður að labba svolitla vegalengd með ruslið, sé maður ekki á bíl, sem ég er ekki. Ég er ekki einu sinni á hjóli. Ég þarf að labba í átta mínútur að sorpgáminum, þannig að allt í allt tekur ferðalagið með ruslið um það bil 20 mínútur. Því auðvitað gerir maður smá stans við gáminn, fyrst maður er kominn þangað. Það tekur í sjálfu sér ekki nema nokkrar sekúndur að renna plasthurðinni frá opinu, og henda inn pokanum; en ég staldraði aðeins lengur við en það. Ég virti fyrir mér sorpið sem aðrir höfðu losað sig við (og þunna, gegnsæja plastpokann, þann sem ég henti sjálfur inn fyrir tveimur eða þremur dögum); ég sá meira að segja þessa fínu stunguskóflu sem einhver hafði hent í gáminn, að því er virtist ónotaðri; ég hefði klifrað inn í gáminn til að ná í hana, væri ég þannig innstilltur. Og ég er þannig innstilltur. En eitthvað aftraði mér frá því að fara inn í gáminn, líklega óttaðist ég að komast ekki aftur út úr honum, og slíkt gæti haft í för með sér alls kyns flækjur, ekki síst vegna þess að ég hef ekkert farartæki tiltækt, eins og ég nefndi, og ekki er útlit fyrir að fleira fólk sé á svæðinu (nema þá auðvitað á bóndabæjunum í sveitinni). En hvað myndi farartæki gagnast mér ef ég festist í gáminum? Gámurinn þyrfti að vera á hjólum, og þar af leiðandi með vél eða fótstigi. Sem er í sjálfu sér ekki slæm hugmynd: Sorpgámur á hjólum. En hvar var ég? Þegar ég hafði horft nægju mína inn í gáminn leit ég í smástund í átt að hlöðunni í hlíðinni, þeirri sem ég var búinn að segja frá (þar sem snærið hangir niður úr þvertrénu; og ég fékk meira að segja eina hugmynd sem ég held að geti nýst í „Tilbrigði mín við snöruna“ (í eina af sögunum fjórum). Síðan gekk ég aftur í bústaðinn. Vindurinn ferðaðist fjórtán metra á sekúndu. Líkami minn slóst til í verstu hviðunum (sem alveg örugglega mældust fleiri en fjórtán metrar), og þegar ég náði í bústaðinn (8 mín. osfrv.) fannst mér eins og ég væri uppþurrkaður af vindinum, að það væri ekkert eftir af mér, að vindurinn hefði beinlínis þurrkað upp efnið sem ég er búinn til úr, eins og maður þurrkar kaffið af eldhúsborðinu, það sem hellist út fyrir þegar maður hittir ekki í bollann. Og þegar ég ætlaði að ná í lykilinn í vasann, þá gerði ég mér grein fyrir að lykillinn var líka horfinn, alveg eins og ég. Þar af leiðandi hlýtur það að vera einhver annar en ég sem skrifar þessa færslu.