26. maí 2017

„But now old friends are acting strange …“ Hvað er það með þetta lag Joni Mitchell, Both sides now? Ég heyrði það fyrst með Frank Sinatra, þegar ég var sirka 12 eða 13; pabbi og mamma áttu plötu með honum, sem ég spilaði á Telefunken-spilaranum í stofunni. Þetta var sem sagt kammermúsík þeirrar stofu, og þess tíma. Ég held ég hafi næst heyrt það með Joni Mitchell sjálfri, á tónleikaplötu sem ég átti með henni, Miles of aisles – mjög fín útgáfa – en svo þegar hún syngur lagið á plötunni Both sides now, árið 2000, sem hún gerði með 70 manna strengjasveit og Wayne Shorter, orðin aðeins eldri en hún var, er maður alveg varnarlaus. Og maður hugsar: hvaða önnur lög hafa svipuð áhrif og þetta lag? Kannski Moon River. Kannski Now my heart is full. Eða It´s raining today? „But now old friends are acting strange …“ Þetta er ein af þessum ógleymanlegu línum í sönglagi, í sama flokki (svo ég haldi áfram flokkuninni) og „í dögum hvarf hún inn um aðrar dyr“. Eða „Tell all of my friends / I don´t have too many …“ En nú er ég farinn. Það er að segja: minn ytri maður er á leiðinni annað. Í ferðalag. Ferðaferð, eins og söngdúettinn Kleópatra söng. Ég horfi með tilhlökkun og hryllingi til þess að vera ekki með tölvu í tæpa viku – mest þó tilhlökkun. Ég fékk fjóra fyrstu þættina af nýju Twin Peaks-seríunni í gær inn í tölvuna mína (eftir ólöglegum leiðum, en með því loforði gagnvart sjálfum mér að síðar muni ég kaupa þá), en ég náði ekki að horfa nema á tæpa tvo. Restin verður það að bíða, þangað til ég kemst aftur í tölvuna. Og minn innri sem ytri maður bíður spenntur eftir framhaldinu – framhaldinu almennt. (Hljómar soldið eins og ég sé að gefa þessari kveðju einhverja extra vigt …)