26. júní 2017

Það er alger tilviljun að kaflinn á undan kafla dagsins hafi sama númer, 26: 26. maí / 26. júní. Ég veit ég þarf ekki að taka fram að ekkert í heiminum er tilviljun; en þetta með töluna 26 var það samt: ég hafði ekki hugsað mér að láta mánuð líða milli færslna. Nú verð ég reyndar aðeins að hafa mig hægan, því sá sem hefur legið kyrr í svona langan tíma, hann á ekki að hreyfa sig mjög snöggt. Á sama hátt og manneskja sem hefur reikað um vatnslaus í eyðimörkinni í nokkra daga, hún á að fara varlega þegar hún loksins kemst í vatn; hún á bara að fá sér nokkra dropa. Ég var eitthvað að hugsa um að minnast á ljóðabókina sem á að koma út næsta haust – til að hrinda kynningarstarfinu af stað, langt á undan öllum hinum sem hyggja líka á einhvers konar kynningarstarf – en eftir nánari umhugsun (ég tala nú ekki um eftir þetta sem ég sagði um eyðimörkina og vatnið og allt það), þá hef ég ákveðið að fara hægt í sakirnar. Ég var búinn að ákveða að tala sérstaklega um eitt ljóðið í bókinni, Næturpóstana, sem ég síðan kippti út úr handritinu, eftir ábendingar um að það ljóð gæti meitt bæði mig og yrkisefnið; en það verður að bíða betri tíma. Að vísu er annað ljóð með sama titli komið inn í handritið (í þetta sinn með litlu n-i: næturpóstarnir), og þar er í einni línunni vísað til gömlu Næturpóstanna (með hástafnum), án þess þó að lesandi ókunnugur gömlu Næturpóstunum fái nokkra hugmynd um hvert inntak þeirra var – og er (því einhvern tíma verða Næturpóstarnir með háa n-inu sendir af stað – ég þarf bara að bíða eftir rétta augnablikinu). Nú finn ég hversu mikið hin snögga (og óundirbúna) hreyfing þess sem hefur setið of lengi kyrr tekur í; ég verð að passa mig á að droparnir verði ekki að heilum sopa. Ég ætla að láta aðstoðarmann minn, Basil Hallvarð, sjá um myndefnið að þessu sinni. Það er mynd af honum sjálfum: