17. júlí 2017

Ég veit að það er ekki liðinn mánuður, en samt. Síðast leið mánuður. Og ég var um daginn að því kominn að gefa Næsta kafla nýtt heiti: Kafli á mánuði. En núna er ég hættur við það, enda færsla dagsins afar brýn; hún þolir ekki nokkra bið; hún snýst um það að spila klassík dagsins í dag, sautjánda júlí – klassík dagsins í dag á mínu heimili, það er að segja. Klassíkin er í flutningi Ralphs Peterson, eða Fo´tets Ralphs Peterson, eins og hann kallar hljómsveitina á plötunni. Platan heitir Ralph Peterson presents the Fo´tet, en ekki spyrja mig hvað „Fo´tet“ á að þýða; ég veit það nefnilega ekki, og hef ekki tíma til að fletta því upp. Tónsmíðin kallast Urban Omen, og er eftir víbrafónleikara Fo´tetsins, Bryan Carrott. Aðrir í hljómsveitinni eru Don Byron, sem spilar á klarinett og bassaklarinett, og bassaleikarinn Melissa Slocum. Ég keypti þessa plötu í Woodstock í New York-fylki árið 1991, á meðan ég var í hljóðveri að taka upp músík með allt annarri hljómsveit, í Bearsville-hljóðverinu. (Sé Bearsville-hljóðverinu flett upp á netinu kemur í ljós að það er ekki lengur til. Sem er alger synd; ég væri alveg til í að vera í nýrri hljómsveit – samt ekki þeirri gömlu – bara til að fá að dvelja í Bearsville aftur.) Ralph Peterson og Fo´tet hans (þetta er að verða býsna þjált nafn, Fo´tet) tóku upp sína plötu sömuleiðis í New York, í A & R Recording, árið 1989. En svo er ekki meira með það – hér er Urban Omen, með Fo´tet Ralphs Peterson: