21. júlí 2017

Fyrst ber að geta þess að eftirfarandi færsla átti að berast í gær, en vegna tæknilegs ómöguleika gat ekki orðið af því: fúnksjón (vef-eitthvað – kann ekki orðið yfir það) lá niðri. En nú er það komið í lag. Hlutirnir fara sjaldnast eins og maður ætlar. Um daginn (17. júlí) ætlaði ég að setja inn færslu um bíómyndina sem ég hafði séð daginn áður (tvisvar þann dag, svo því sé haldið til haga); en áður en ég vissi af (áður en hausinn kom nokkrum vörnum við) var ég farinn að tala um „klassík dagsins í dag á mínu heimili“ (jazzlag með Fo´tet Ralphs Peterson); og vegna þess að það verkefni var farið af stað fannst mér erfitt að hætta við (enda alveg þess virði að minnast á Fo´tet Ralphs Peterson). Bíómyndin sem ég ætlaði að segja frá er hins vegar argentísk og heitir Relatos salvajes (Wild Tales). Hún er eftir ungan leikstjóra og handritahöfund, Damián Szifron, og framleiðandi er Pedro Almodóvar. Ég veit fullvel að ég er ekki að færa einhverjar nýjar fréttir úr kvikmyndaheiminum – ég hefði fyrir löngu átt að vera búinn að sjá þessa mynd – en mér finnst stór ástæða til að segja frá henni, því mig grunar að lesandi þessarar síðu hafi ekki séð hana. Trylltar sögur (eða hvernig sem maður kýs að snara hinum lýsandi titli yfir á Old Norse) segja sex mismunandi langar sögur um hefnd. Þessar sögur, og hvernig þær eru sagðar, eru stórhættulegar (í merkingunni gagnlegar) fyrir höfund; ekki bara höfund eins og mig – mikið gæfi ég annars fyrir að vita hvers konar höfundur ég er – heldur kannski sérstaklega aðra kvikmyndahöfunda en Damián Szifron. Ég veit ég sagðist ætla að „segja frá“ þessari mynd – og var þá eflaust að hugsa um að vitna í eitthvað úr henni, eða tjá mig um efnið, osfrv. – en nú finnst mér eins og slíkt væri illa gert gagnvart lesanda síðunnar (ef hann hefur ekki þegar séð myndina). Það nægir að nefna nafn hennar; og ég treysti því að lesandinn taki mark á mér þegar ég lýsi því yfir að þetta sé bíómynd sem maður verður að sjá. Eins og í flestum smásagnasöfnum eru sögurnar misgóðar, eða misáhrifamiklar, en allar sex eru svo vel skrifaðar og útfærðar, að maður fær aldrei á tilfinninguna að einhver þeirra hefði mátt missa sín. Það var bara ein önnur bíómynd sem kom upp í hugann þegar ég horfði á þessa mynd, og það var Vofa frelsisins eftir Buñuel. Ekki bara vegna þess að þar eru sagðar nokkrar ólíkar sögur, heldur er eitthvað skylt með geggjuninni og húmornum í þessum tveimur myndum. Fimm stjörnur (sex danskar). Núna er aftur á móti komin upp sama staða og fyrir fjórum dögum, þegar ég ætlaði að segja frá Relatos salvajes, en sagði í staðinn frá Fo´tet Ralphs Peterson – ég ætlaði mér nefnilega í dag að tala um kvikmyndaáhorf gærkvöldsins. Sem var Clockwork Orange (enduráhorf). Og reyndar ætlaði ég líka að segja frá tónlistarneyslu minni í gærkvöldi, áður en ég horfði á Clockwork Orange. Ég hlustaði nefnilega á tvær hljómplötur sem ég hef ekki heyrt lengi í heild sinni: ´Heroes` og Lodger með David Bowie. Þær voru þó ekki hugsaðar sem upphitun fyrir mynd Kubricks; ástæðan fyrir því að ég setti þær á fóninn (eða í slíðrið) var sú að fyrr um daginn fékk ég í pósti bókina Low eftir rithöfund sem heitir Hugo Wilcken; bók sem eins og nafnið bendir til fjallar um plötuna Low eftir David Bowie. Líkt og með Trylltar sögur Damiáns Szifron ætla ég að halda aftur af mér með að lýsa þessum plötum öllum – það er búið að lýsa þeim nógu oft, þótt þeim sem það hafa gert hafi láðst að fjalla af sanngirni um mikilvægan þátt bassaleikarans George Murray og trommuleikarans Dennis Davis. Reyndar voru þeir tveir, George og Dennis, ásamt gítarleikaranum Carlos Alomar, teknir svolítið fyrir í annarri bók sem ég las um daginn, On Bowie eftir tónlistarskríbentinn Rob Sheffield; og mér sýnist að í bók gærdagsins, Low (sem ég er ekki byrjaður að lesa) sé sérstaklega fjallað um hversu stórt og mikið hlutverk George, Dennis og Carlos leika á þessum dásamlegu plötum Bowies. En hvert er ég eiginlega kominn? Af hverju er ég að segja frá þessu? Ég veit ég er svolítið upptekinn af tónlist áttunda áratugar síðustu aldar í augnablikinu – það hefur að gera með bókina sem ég er að skrifa (sem kemur út á næsta ári, ekki á þessu, eins og upphaflega stóð til) – en ég verð samt að stilla mig af í að fjalla um músík, því ég hef ekki hundsvit á músík. Nú finnst mér ég þurfa að endurtaka: hvar var ég staddur? Clockwork Orange. Ég treysti mér ekki að tala um þá mynd, nema að minnast á (sem ég mundi ekki eftir frá því ég sá myndina fyrir sirka 40 árum) að gæludýr hrottans Alex DeLarge heitir Basil. En Basil hans Alex er ekki köttur, eins og kötturinn sem ég þekki (og heitir einmitt Basil), heldur snákur. Nóg um það. Af því ég nefndi David Bowie hérna áðan, þá rifjast upp fyrir mér að ég hafði um daginn ætlað mér að setja hjer á síðuna (ansi margt sem ég hef ætlað að setja hér á síðuna!) lagið I took a trip on a gemini spacecraft, af plötunni Heathen, ekki bara til að koma því lagi að sérstaklega, heldur til að benda á frumútgáfu þess, með Legendary Stardust Cowboy. Auglýsingafólk talar oft um „epli og appelsínur“ – mér varð hugsað til þeirrar klisju þegar ég heyrði Legendary Stardust Cowboy flytja þetta lag sitt, sem David Bowie gerði síðan að sínu. Þetta er ansi áhugavert. Gjörið svo vel. Fyrst Legendary Stardust Cowboy:

Svo David Bowie: