23. júlí 2017

Ég þekki þessa tilfinningu frá því áður: maður gerir margar atrennur að því að loka ljóðahandriti; í einhver þrjátíu skipti (kannski bara tuttugu) er maður alveg viss um að heildin sé komin, en daginn eftir, jafnvel strax um kvöldið, kemur í ljós að sprunga er í heildinni – og hún lekur. Auðvitað á ljóðahandrit að leka; sprungurnar í því eru öndunin sem handritið þarf á að halda – og auðvitað er ég bara að nota þetta líkingamál til að reyna að vera smart. En einhver tilfinning er það sem segir manni að ljóðahandrit sé komið, og þurfi ekki á fleiri ljóðum að halda, eða fleiri breytingum. Og núna í dag gerðist þetta hjá mér, með handrit sem kallast Öfugsnáði. Það er langt síðan titillinn var ákveðinn, og líka langt frá því að fyrsta gerð var tilbúin – sú gerð líkist ekki mikið þeirri nýjustu – en ljóðið sem varð til í dag (helmingurinn af því undir stýri á leiðinni í Borgarfjörð) held ég að hafi skellt hurðinni á frekari breytingar (eða gerðir). Eftirlætis orðtækið á mínu heimili er „að gera breytingar“ (það kemur frá yngsta aðilanum, að vísu ekki dýrinu, „aðstoðarmanninum“, þeim sem í raun er yngsti aðilinn); en nú eru „breytingarnar“ að baki: Öfugsnáði verður eins og hann er núna. Og þá er ekkert eftir annað en að spila músík. Ég hafði verið að hugsa um að láta ljóðið frá í dag fylgja með í færslunni, en núna tími ég því ekki. Ég læt nægja að hafa titilinn: Eins konar millifyrirsögn. En hver verður músíkin? Hvað er við hæfi á skýjuðum, en mildum, sumardegi í Reykholtssveit? Á meðan ég velti því fyrir mér dettur mér í hug að hafa frekar myndskreytingu en músík (er aðallega að hugsa um myndina af fyrrv. forseta Íslands, þar sem hann dettur í áttina að páfa, á heimili páfa); en það er allt of freistandi að láta músík fylgja, fyrst maður hefur nefnt þann möguleika á annað borð. Hef ég einhvern tíma haft Juliu (beygist: Julia) Holter hér á heimasíðunni? Nei, ég held ekki. Ég hef vitnað í texta eftir hana, en aldrei haft tóndæmi. Ókei. Svo er ekki meira með það. Niðurstaðan er fengin: fyrst kemur myndin af hallandi forseta (fyrrv.), síðan Julia Holter: