25.ágúst 2017

Auðvitað hljómar það sem fullkomin rökleysa, og eiginlega alveg út í hött, sama hvernig á það er litið, en það er ekki hægt annað en að kenna í brjósti um brölt Valhalla-samtakanna við að finna einhvern „aðila“ sem hægt væri að dubba upp sem borgarstjóraefni. „Nýjustu“ nöfnin sem nefnd hafa verið eru Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, og Páll Magnússon þingmaður (fyrir samtökin). Ef ég væri ekki á leiðinni upp í sveit (og staddur í miðri niðurpökkun fyrir þá ferð) myndi ég reyna að stinga upp á einhverjum nöfnum sem Sjálfstæðisflokkurinn ætti að íhuga sem borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins. En ég hef bara ekki tíma. Mér dettur samt í hug Brynjar Níelsson, hressi þingmaðurinn, sá sem … (nú er ég alveg að renna út á tíma; meira síðar – sem auðvitað verður ekki, því eins og minn glöggi lesandi veit, þá (ég birti þetta óbreytt, þótt það standist ekki málfræðilega): „ef ég nefni í einni færslu að ég ætli að gera eitthvað ákveðið að umtalsefni í þeirri næstu – ef til vill vegna þess að í augnablikinu hafi ég ekki tíma til þess, eða þurfi að láta eitthvað annað meira aðkallandi ganga fyrir – verður yfirleitt ekkert úr því að ég nefni það sem ég frestaði, en lofaði að nefna næst.“ En fyrst ég er að kenna í brjósti um Valhalla Party, þá finnst mér eins og ég eigi að birta mynd hérna með færslunni, svo að hann (Flokkurinn) geti huggað sig við hana (myndina) – inntak hennar; efni og merkingu – á meðan ekki finnst nothæft borgarstjóraefni til að ýta fram í kosningum komandi árs: