29. ágúst 2017

Í Fréttablaðinu um síðustu helgi var tveggja síðna umfjöllun um minnkandi bókalestur á Íslandi. Ég var úti á landi um helgina, og sá því ekki blaðið fyrr en í gær, á mánudegi, sem hlýtur þá að merkja að ég hafi ekki skoðað blaðið í tölvunni, eins og maður gerir stundum – kannski var ég bara upptekinn við að lesa bók í sveitinni? Umfjöllunin í blaðinu var fín – held ég – þar var rætt við nokkra íslenska höfunda, og fleira fólk sem tengist bókaútgáfu; en blaðamennirnir, sem voru tvær ungar konur, hefðu samt mátt biðja einn af viðmælendum sínum um að skýra mál sitt aðeins betur, fannst mér. Stefán Máni, höfundur Svarts galdurs og fleiri bóka, sagði meðal annars þetta:

„Almenningur hefur smám saman orðið afhuga íslenskum bókmenntum. … Það eru vissulega margir sem lesa en ekki endilega íslenskar bækur. Að mínu mati er snobbið að drepa íslenska menningu, þá helst bókmenntir og kvikmyndir. Frá því að Laxness fékk Nóbelinn hafa íslenskir höfundar upp til hópa skrifað bækur í þeim tilgangi að fá hól og verðlaun hjá einhverri elítu í stað þess að skrifa fyrir almenning, að föndra við stíl í stað þess að segja sögur.“

Þetta hljómar svolítið eins og Guðbergur Bergsson að fjölyrða um íslenska rithöfunda og listamenn („Listamaðurinn verður að …“ osfrv.; „Rithöfundurinn býr í kjallara …“ ogsfrv.), þótt líklega tæki Guðbergur ekki undir allt þetta sem Stefán Máni segir. En hvort sem þetta hljómar í anda Guðbergs eða einhvers annars, þá hlýtur maður að spyrja sig: Hvaða bull er þetta eiginlega? Hvað er Stefán Máni að meina? „Snobbið að drepa íslenska menningu“? „… að föndra við stíl“? Stefán Máni heldur áfram:

„Ef bækur eru ekki skrifaðar fyrir fólkið í landinu, fyrir hvern þá? Berum virðingu fyrir almenningi – hann borgar launin okkar. Og berum virðingu fyrir þeim listamönnum sem skapa fyrir fólkið í landinu. Þannig verður menning til – þannig snúum við blaðinu við.“

Þarna verður reyndar ekki vart við Guðberg Bergsson, kannski frekar einhver prest, líklega prest sem er nýbyrjaður í starfi. „Berum virðingu fyrir almenningi …“? Ég er litlu nær, en ég ímynda mér að Stefán eigi við það að ákveðnir rithöfundar sýni almenningi óvirðingu með því að „föndra við stíl“, og þar með gleymi þeir að segja sögu (sem almenningur hefur borgað rithöfundinum fyrir að gera – borgað honum fyrirfram). Og mjög líklegt er einnig að Stefán sé á þeirri skoðun að snobbið, sem er að murka lífið úr íslenskri menningu (þá helst bókmenntum og kvikmyndum), sé helst að finna í föndri höfunda við stíl. Kannski lögðu blaðamennirnir tveir ekki upp með að vera gagnrýnir á orð viðmælenda sinna þegar þeir söfnuðu saman í greinina, en mér finnst samt einhvern veginn að þeir hefðu átt að spyrja Stefán Mána: „Hvað áttu við með að snobb sé að drepa íslenska menningu? Er íslensk menning í dauðateygjunum, af völdum snobbs? Og hvað áttu við með orðinu snobb?“ Og kannski hefðu þeir líka átt að biðja höfund Svarts galdurs um að segja sér fyrir hverja hann álíti að íslenskir „föndurhöfundar“ séu að skrifa, fyrst þeir eru ekki að skrifa fyrir (íslenskan) almenning. Líklega er það ósanngjarnt af mér að setja bara spurningarmerki við það sem Stefán Máni segir í Fréttablaðsgreininni, en ekki það sem t.d. Auður Ava Ólafsdóttir segir, eða Katrín Jakobsdóttir; en málið er bara það – og kannski er það hrein og bein vænisýki – að mér líður svolítið eins og ég hljóti að vera einn af „föndurhöfundum“ Stefáns Mána; að ég beri ekki virðingu fyrir íslenskum almenningi, sé bara að dunda mér við að föndra í vinnunni – að ég skuldi jafnvel íslenskum almenningi peninga sem hann hefur borgað mér fyrir að skrifa fyrir sig sögu. En ég er sjálfur íslenskur almenningur. Og kannski liggur sönnun þess (að ég sé ísl. almenningur) í því að ég hef sjálfur sest niður með bók eftir Stefán Mána, með það fyrir augum að lesa hana. Til dæmis opnaði ég Svartan galdur, og þegar ég var kominn á blaðsíðu 16, þá gat ég ekki varist þeirri hugsun að á þeirri síðu (og yfir á bls. 17) væri að finna texta sem svolítið hafði verið „föndrað“ við. Á einni blaðsíðu í Svörtum galdri Stefáns Mána – og ég ítreka: á einni síðu – er að finna allt þetta:

„Hennar [augu] eru stór og brún, hlý eins og síðkvöld á Spáni. … Í höfðinu á honum þyrlast orð og setningar í hringi, eins og skrælnuð laufblöð í húsasundi. … sólin kemur seint upp, apríkósugul, og sest snemma, dökk eins og blóðappelsína. … Skammdegið leggst hægt og rólega yfir, eins og nótt allra nótta. … Það er ljósið sem býr til skuggann. … Haustið er hægur dauði, þunglyndi náttúrunnar.“

Hm.