4. ágúst 2017

Í fyrsta ljóði bókar sem á að koma út í haust, Öfugsnáða (ég læt þetta hljóma eins og ég hafi ekki minnst á þennan bókartitil áður), þar lýsi ég trillu sem siglir á Rauðarárvíkinni, í átt að Sólfari Jóns Gunnars Árnasonar við Sæbrautina. Þessi trilla, og sigling hennar, er ekki eitthvað sem ég fann upp á sjálfur; ég sá hana fyrr í sumar; hún kom siglandi í átt frá Laugarnesinu, og hægði síðan ferðina þegar hún nálgaðist Sólfarið, eins og til að leyfa túristunum sem þar stóðu að mynda sig með símunum sínum. Það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég virti þetta fyrir mér voru simpansarnir í dýragörðum stórborganna, þeir sem stilla sér upp við rimlana eða glerið, og gretta sig framan í fólkið sem hefur borgað sig inn í garðinn. Líklega mjög einkennilegt að fá þá mynd í hausinn við að horfa á veðurbarna trillu á kuldalegum haffleti. Mér datt líka í hug ljóð Rilkes um hlébarðann (eða Lébarðann, eins og Helgi Hálfdanarson hefur það). Þriðja hugdettan var síðan sú að festa þessa mynd af trillunni og túristunum í ljóð – að nýta þetta photo opportunity á annan hátt en að smella af, enda var ég ekki með myndavél á mér. Þannig að ég sagði frá þessu í ljóði. („So I wrote a book about it …“ eins og David Toop orðaði það í fyrirlestri sínum á Orðinu tónlist í Tjarnarbíói í kringum árið 2000.) En svo gerist það, að í gær, þegar ég hjólaði eftir Sæbrautinni í átt að miðbænum, tók ég eftir að sama trilla, sú sem ég hafði fest í ljóðinu, var á sama róli og fyrr í sumar, á nákvæmlega sama stað og hún er í ljóðinu. Hún hægði ferðina þegar hún nálgaðist Sólfarið, og dólaði sér síðan letilega fyrir framan túristana með myndavélasímana. Ég vissi ekki hvað mér átti að finnast um þetta. Allt sem gerist oftar en einu sinni á auðvitað minna erindi í ljóð en það sem gerist bara einu sinni; en svo ákvað ég með sjálfum mér að þetta væri staðfesting á því að ljóðið segði satt og rétt frá, að líkingin við simpansana í búrunum ætti rétt á sér. Skrítið orðalag, að líking „eigi rétt á sér“ … Núna er ég á einhverjum villigötum. Og þá er líka best að setja punkt. Færsla dagsins í dag átti upphaflega að fjalla um forsætisráðherra Íslands, en skynsemin varð reiðinni yfirsterkari, og þess vegna fór ég að hugsa um simpansa og lébarða. Og núna er allt í einu komin verzlunarmannahelgi.