11. september 2017

R. hringdi í mig áðan til að spyrja hvort hann gæti kíkt í heimsókn til mín í vikunni. Hann er að þýða bók eftir mig, skáldsöguna Sögumaður (eða Sögumann, ég veit aldrei hvort maður beygir titilinn á hlutnum, þegar orðið sem lýsir honum hefur þegar verið beygt); og hann vill spyrja mig út í nokkur atriði í þýðingunni. Því þrátt fyrir að orðaforði bókarinnar sé ekki mjög flókinn, þá er notkun persónufornafna í henni svolítið snúin þegar kemur að því að breyta íslenskunni yfir í frönsku. Eins og venjulega þegar R. hringir, þá erum við fljótlega farnir að tala um eitthvað annað en það sem hann ætlaði að tala um þegar hann ákvað að hringja; og í þetta sinn (eftir að hafa rætt um fjölda byggingarkrana í notkun í Reykjavík í augnablikinu, og háþrýstidælur, þær sem eru notaðar til að fjarlægja graffiti af veggjum húsa) barst talið að gæludýrum. Það tengdist þó ekki því að R. þýddi einu sinni aðra bók eftir mig, einmitt með þeim titli: Gæludýrin. Hann vildi vita hvort ég vissi hvað væri vinsælasta „nýja“ gæludýrið í dag. Ég var svo vitlaus að láta mér detta í hug að það væri köttur, en R. leiðrétti mig: „Nei, ég á við „nýja“ gæludýrið.“ En áður en hann sagði mér það, þá spurði ég hann (með hugann við að R. ætlaði að heimsækja mig í vikunni): „Ertu nokkuð með ofnæmi fyrir Basil?“ Ég er strax búinn að gleyma hverju R. svaraði nákvæmlega – hann hafði ekki hugmynd um að inn á heimili mitt væri komið dýr af þeirri tegund sem Basil er – en í svari hans fólst þó að hann hefði ekki ofnæmi fyrir Basil – ég vona að ég hafi skilið hann rétt. Hann útskýrði meira að segja fyrir mér upprunalega merkingu orðsins basil (hvers rússneska mynd, til dæmis, er nafnið Vassily). Það þýðir konungur. Ég þarf að segja Basil það, næst þegar hann kemur inn í herbergi til mín. (Það verður kannski til þess að hann hættir að líta á sig sem fursta.) En hvað er þetta „nýja“ vinsæla gæludýr sem R. var að spyrja mig um? Jú, það er margglytta. Auðvitað er það margglytta, hugsaði ég. R. hafði lesið grein um þetta í belgísku dagblaði, sem hann ætlar að senda mér. Ég veit að þetta er ekkert sérstaklega aðkallandi umræðuefni á þessum degi, 11. september; en núna er of seint að breyta því – ég er búinn að minnast á þetta. Ég hafði ætlað mér að tala um dómsmálaráðherra, Sigríði Á. Andersen, og yfirlýsingu hennar um að það „kæmi ekki til greina að endurskoða mál sem dúkka hérna tilviljanakennt upp í umræðunni“, en nú má segja að R. hafi komið mér til hjálpar með því að hringja og fara að tala um margglyttur, því þannig fékk ég fína afsökun fyrir að fara nú ekki að tala um dómsmálaráðherra. R. rifjaði líka upp, í sambandi við margglytturnar, að fyrir mörgum árum hefði verið mjög vinsælt að nota hreyfimyndir af margglyttum sem skjáhvíla í tölvum (screen savers) – ég er ekki frá því að ég sé sjálfur að nota þetta umræðuefni sem skjáhvíli hér og nú.