13. september 2017

Til að reyna að skilja þankagang og framkomu hæstvirts dómsmálaráðherra Íslands, Sigríðar Á. Andersen – ekki bara í máli stúlknanna tveggja sem vilja halda áfram að eiga heima á Íslandi, heldur bara almennt, og þá ekki síst hvað varðar tilburði hennar til að halda upplýsingum frá almenningi – þá setti ég á fóninn tónverkið Kontakte eftir Karlheinz Stockhausen. Ég hef reynt þessa aðferð áður, að spila ákveðna tónlist með það fyrir augum að hún hjálpi mér við að fá einhvern botn í ákveðinn stjórnmálamann íslenskan. Í það skiptið, það er að segja fyrra skiptið, setti ég í spilarann Nonsense Madrigals eftir György Ligeti (og gleymdi reyndar að slökkva áður en næsta verk hófst, Mysteries of the Macabre, svo ég leyfði því bara að hljóma líka). Árangurinn varð slíkur – það er að segja jákvæður – að mér fannst ég endilega eiga að reyna þetta aftur. Og nú hef ég gert það, í þetta sinn til að reyna að skilja Sigríði Á. En það gerðist ekki neitt. Sigríður er mér enn hulin ráðgáta. Að vísu er ekki rétt að „ekkert hafi gerst“, því að lokinni hlustun á Kontakte í þetta sinn finnst mér ég skilja verk Stockhausens mun betur en ég gerði áður (en auðvitað á kostnað þess að ég botna enn minna í Sigríði Á. Andersen en nokkurn tíma fyrr). En talandi um músík, þá horfði ég aftur á Stroszek Werners Herzog í gærkvöldi, í þetta sinn án hljóðrásarinnar, en með rödd Herzogs yfir, þar sem hann sagði frá gerð myndarinnar, samstarfinu við leikarana, og tilfinningum sínum gagnvart þeim og myndinni í heild. Stroszek er absólút mynd þess eðlis að maður gæti horft á hana aftur og aftur, það er þvílík dýpt og þvílíkt líf í karakterunum; en það er ekki síður upplifun að heyra í leikstjóranum tala yfir myndina – það er reyndar alltaf gaman að heyra Herzog tala. En hvað hefur þetta með músík að gera? Notkun á músík í þessari mynd er held ég alveg sérkapítuli út af fyrir sig, jafn sparleg og hún er, en það sem ég ætlaði að minnast á var það sem Werner Herzog kallaði the poetry of capitalism; talnaþulur sem farið er með undir lok myndarinnar, þegar verið er að bjóða upp eigur Brunos, Scheitz og Evu, í tuttugu stiga frosti (ef marka má orð Herzogs um hitastigið á tökustað). Talnaþulurinn heitir Ralph Wade, og er (eða var?) það sem kallað er livestock auctioneer. En hér er þetta – ljóðlist auðvaldsins: