20. september 2017

Í Minnisbók sinni rifjar Sigurður Pálsson upp einn dag í júní árið 1982, þegar Kristín var farin heim til Íslands til að undirbúa tökur á kvikmyndinni Á hjara veraldar, og hann fór á tónleika með The Rolling Stones. „Að verða loksins vitni að leiksviðstilveru Stones, það var eins og fyrir katólikka að fá þriggja tíma áheyrn hjá páfanum,“ segir Siggi í bókinni. Seinna um kvöldið fór hann á Coupole-kaffihúsið á Montparnasse, og sat þar „einn með mat mínum“, eins og hann orðar það. En þá gerðist það að „gítarhöfðinginn“ Keith Richards kemur inn á staðinn, með nýju konunni sinni og fleira fólki, og upp hófst mikil rauðvínsdrykkja á rokkliðinu einhverja tvo metra frá borði Sigga. Á meðan Siggi fylgdist með, og vann á kjúklingnum sínum, kom að honum þjónninn á staðnum og spurði hvort hann ætlaði ekki að fá eiginhandaráritun hjá Keith. Siggi sagðist hafa hug á því, úr því svo vel bæri í veiði, en þjónninn bauð þá fram aðstoð sína: „Viltu kannski að ég sjái um það?“ Sigga þótti það heillaráð. Svona segir hann frá þessu í Minnisbókinni:

Keith tók þessari beiðni afar ljúflega. Þess vegna á ég jarteikn af þessum fundi, áritað blað með bréfhaus La Coupole, undirritað „With love, Keith Richards“.

Mig langar til að senda Sigga samskonar kveðju: „With love, B.“