22. september 2017

Ég veit ekki af hverju – það er eiginlega óskiljanlegt – en ég hafði aldrei séð fyrstu mynd Jacques Tati áður, Jour de fête. Þangað til fyrir þremur dögum. Fyrir nokkrum árum sá ég reyndar hluta af myndinni, þegar ég fór í heimsókn til þýðandans og „Íslandsvinarins“ Erics Boury í Caen í Normandí; hann vildi endilega sýna mér smá búta úr henni, því myndin er tekin í bænum þar sem hann ólst upp, Saint-Sévère. Ég hafði séð allar aðrar myndir Tatis áður, sumar þeirra mjög oft, sérstaklega Sumarleyfi Hulots, Mon oncle og Playtime; en líklega hef ég alltaf hugsað sem svo að Jour de fête væri ekki jafn snörp og „góð“ og seinni myndirnar, að það væri engin aðkallandi þörf á að horfa á hana. En svo eignaðist ég heildarsafn Tatis þegar ég átti afmæli í ágúst (fékk kassann í gjöf frá Evu Þórdísi Ragnarsdóttur), og á þriðjudaginn var (sama dag og Sigurður Pálsson andaðist – skrítið að hugsa til þess) var komið að því að horfa á Jour de fête. Og þvílík mynd! Það þarf ekki að nefna að allar hinar myndir Tatis (hugsanlega fyrir utan hans síðustu, Parade, sem ég hef ekki séð mjög lengi, og man voða lítið eftir) eru dásamlega fyndin og upplífgandi kvikmyndaverk, gerð af einstakri alúð og nákvæmni, og af mikilli hlýju – mér liggur við að segja ást, þótt ég bíði aðeins með það orð í bili … En nú þarf ég að hlaupa (frá hálfkláraðri færslu) – ég tek þó fram að ég er ekki að hlaupa í burtu vegna þess að ég hafi orðið eitthvað feiminn við orðið ást; ég hef bara einfaldlega öðrum (og meira áríðandi) hnöppum að hneppa í augnablikinu en að skrifa einhverja færslu um Jacques Tati (þótt auðvitað ættu allar færslur að fjalla um hann). Ég ætla samt að leyfa mér að hvetja alla þá sem einhvern tíma hafa starfað sem póstmenn (og öll þau hin sem hefur langað til, eða hafa í hyggju, að starfa sem póstmenn) að sjá bíómyndina Jour de fête. Hún er svokallað skylduáhorf fyrir verðandi/núverandi/fyrrverandi póstmenn. (Ég tilheyri sjálfur síðastnefnda hópnum.) Ég hafði reyndar ætlað mér að fara út í svolítinn kvikmyndasamanburð – var að hugsa um að tala um bíómyndina The Square, sem ég sá um daginn í Cinema Paradiso við Hverfisgötu, og bera hana saman við t.d. Jour de fête, sem hefði reyndar táknað að síðarnefnda myndin, sú franska, kæmi allbetur út en sú sænska, í minni amatörumfjöllun – en þetta verður að bíða betri tíma (sem ég geri mér auðvitað alveg grein fyrir hvað þýðir). Og nú er ég horfinn til annarra starfa. Ég rétt næ þó að líma hér við færsluna eina senu úr mynd Tatis, þar sem póstmaðurinn Francois festir sig við pallbílinn.