27. september 2017

Í tvo daga hef ég ekki getað gert upp við mig hvort ég eigi að setja hér færslu um hljómsveitina sem ég var að uppgötva í fyrradag, eða fyrir þremur dögum – á eftir öllum hinum, geri ég ráð fyrir. Að uppgötva nýja popphljómsveit (í þessu tilviki ekki svo nýja) er alltaf talsverður áfangi í mínu hversdagslífi – það gerist ekki oft að ég „detti inn í“ hljóðheim einhverrar hljómsveitar eða popptónlistarmanns, en þegar það gerist, þá verður slík uppgötvun alltaf eins konar „double happiness“, eins og þeir í Japan orða það. Ég held samt að ég ætti að bíða aðeins með að nefna einhver nöfn – eða nafnið – ég er búinn að fá fjórar plötur lánaðar með þessari ónefndu hljómsveit á Borgarbókasafninu, en hef ekki enn getað tekið hina endanlegu ákvörðun um hvort þessi músík er endilega „málið“. Þangað til verð ég bara að hlusta aðeins meira á plöturnar, og velta kannski fyrir mér í leiðinni hvort brotthvarf Birgittu Jónsdóttur af alþingi sé gott fyrir Pírata eða ekki. Eins og staðan er í augnablikinu (hjá „þáttastjórnanda“ Næsta kafla) mun „þáttastjórnandi“ Næsta kafla setja sitt X við Pírata í yfirvofandi alþingiskosningum (eins og hann gerði síðast líka, þegar Píratar voru eini flokkurinn sem útilokaði algerlega samstarf við óvin nr. 1, sem þeir, Píratar, virðast ætla að endurtaka núna) – og allt í einu dettur honum í hug, „þáttastjórnandanum“, þegar klukkan er þrjár mínútur yfir sex, síðdegis á miðvikudegi í ofanverðum septembermánuði árið 2017, að fleiri en einn í Píratapartíinu hljóti að hlusta á þessa hljómsveit sem er að valda öllum þessum heilabrotum í popphöfðinu …