30. september 2017 (aukafærsla nr. 2)

Ég var ekki fyrr búinn að nefna inni á heimilinu að ég færi alltaf að hugsa um „Gott fordæmi“ Dags þegar ég ryksugaði, þegar annar aðili sama heimilis rifjaði upp fyrir mér annað ljóð, íslenskt, um „the act of vacuum-cleaning“ eða „the act of hoovering“ – og um leið skildi ég ekkert í mér að hafa ekki orðið hugsað til þess ljóðs í morgun, á meðan ég sveif um gólfin – og eftir teppunum – með ryksuguna á hæstu stillingu. Ástæðan fyrir þessari yfirsjón gæti þó hafa verið sú að þetta ljóð sem ég var minntur á af „hinum aðilanum“ „gerist“ í raun ekki á gólfinu eða teppinu – það teygir sig dýpra inn í veröld ryksugunnar, nefnilega inn í skápinn þar sem ryksugan er geymd. Og á meðan maður ryksugar („Á meðan rithöfundurinn ryksugar hugsar hann um, osfrv“, eins og það myndi hljóma á guðbergsku), þá er líklegra að maður sé frekar með hugann við það svæði sem ryksugunni er ætlað að þrífa, en það svæði sem hún er geymd á – og þar liggur einmitt styrkur ljóðsins sem ég er um það bil að fara að pikka inn hér (vonandi með góðfúslegu leyfi). Ljóðið er eftir Gyrði Elíasson, og það er að finna í bókinni Hér vex enginn sítrónuviður:

 

HREINGERNINGAR

 

Úr leiðarvísi fyrir ræstitækna

í opinberum byggingum

 

Þegar ryksugað er

má alls ekki gleyma

að ryksuga skápinn

þar sem ryksugan

er geymd