4. september 2017 (aukafærsla)

Þættinum hefur borist bréf. Það barst utan úr geimnum. Ég er ekki vel að mér í geimvísindum, og heldur ekki landafræði – ég er almennt ekki vel að mér í neinu; ég er það sem skáldið Fire Iron kallar fjölómenntaður – en ég tel mig samt vita að bréfið sem mér barst í dag hafi borist utan úr geimnum. Ekki að það skipti miklu máli; það sem skiptir máli er að þættinum (heimasíðunni) barst bréf með fyrirspurn um færsluna sem ég birti fyrr í dag. Ég var spurður hvað orðið öfugsnáði þýddi. Og ég fékk strax á tilfinninguna að geimveran sem spurði mig hafi hugsað sem svo að þetta orð þýddi eitthvað vafasamt, eitthvað miður gott, jafnvel eitthvað sem almennt er ekki talað um á hans slóðum. En það er ekki um neitt svoleiðis að ræða. Öfugsnáði er einfaldlega staðarheiti; það er svæði við Þingvallavatn, þar sem fólk veiðir fisk, aðallega murtu, en líka hinar tegundirnar sem Þingvallavatn býður upp á. Og þaðan hef ég titilinn á ljóðabókinni sem ég minntist á í færslu dagsins. En öfugsnáði hefur líka orðabókarskýringu. Eða skýringar. Og þær skýringar gerðu ekkert til að draga úr áhuga mínum á að nota þetta orð mér til framdráttar, ef svo má að orði komast. Framdráttur … það er ekki síður athyglisvert orð. En hér er öfugsnáði, og það sem hann þykist standa fyrir:

 

ÖFUGSNÁÐI KK, öfugsnoði KK 1 lamb með öfugt hárafar við fæðingu og sem skiptir um ull á fyrsta vori • kind sem fer úr ull að hausti 2 vanþrifaskepna 3 ógerðarlegur, öfugsnúinn maður

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
OLYMPUS DIGITAL CAMERA