5. september 2017

Framundan í dag eru tveir atburðir, sem ábyggilega er hægt að kalla stóra; og með góðum vilja get ég tengt þá báða mínu eigin sjálfi, hvort sem sú tenging stækkar þá eða smækkar. Sá fyrri er leikur íslenska landsliðsins í fótbolta, og þess úkraínska. Það vita það ekki allir, ekki einu sinni fólk í mínum „innstu hringjum“, en ég æfði einu sinni fótbolta með félagsliði. Með Knattspyrnufélagi Reykjavíkur. Ég hefði getað náð langt – upp allan völlinn, býst ég við, hefði ég bara sýnt því meiri áhuga, og ekki látið önnur áhugamál trufla. Hinn atburður dagsins er Íslandsfrumsýning bíómyndarinnar Undir trénu eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson. Þegar ég fékk boðskort á sýninguna hugsaði ég sem svo: Af hverju sýna þeir myndina á sama tíma og Íslendingar spila við Úkraínu? Og ég spurði mig líka: Af hverju þurfa fótboltaleikir að vera á kvöldin, þegar leikmenn eru kannski búnir að fá sér eitthvað með matnum, og hugsanlega líka eitthvað fyrir matinn – af hverju eru svona leikir ekki hafðir fyrr um daginn, t.d. upp úr hádegi, eða um miðjan daginn – helst ekki of nálægt hádegismatnum, svo leikmenn séu ekki of þungir á sér og slappir, því það má heldur ekki útiloka að þeir fái sér eitthvað með hádegismatnum. En allar þessar áhyggjur mínar hurfu mjög snöggt þegar ég komst að því að leikurinn á Laugardalsvellinum á að byrja klukkan hálfsjö eða sjö í kvöld, en ekki klukkan átta, eins og ég hafði óttast. Þessi „nýja“ tímasetning ætti í fyrsta lagi að koma í veg fyrir að landsliðsmeðlimir séu búnir að hesthúsa kvöldmatinn sinn (og allt sem honum fylgir), og í öðru lagi verður þá leikurinn væntanlega búinn áður en sýning myndarinnar eftir Hadda hefst, en hún á að hefjast klukkan níu í kvöld. Nema auðvitað að komi þurfi til vítaspyrnukeppni og framlengingar – og umspils (er það ekki það sem það er kallað: umspil?) – þá teygist á leiknum, eins og fólk veit. En við skulum ekki gera ráð fyrir að þetta endi í vítaspyrnukeppni eða framlengingu. Nú er því útlit fyrir að ég geti gengið inn í bíósalinn í kvöld með úrslit landsleiksins í huganum. En hver er hin „tengingin“ við atburði dagsins, sem ég nefndi hér í upphafi? Ég var bara búinn að nefna eina þeirra, það er að segja þá tengingu að eitt sinn leit út fyrir að ég myndi ná langt í fótboltanum.[1] Hin tengingin er sú að einu sinni ætlaði Hafsteinn Gunnar að gera bíómynd eftir einni af bókunum mínum, nefnilega Hvíldardögum, skáldsögunni sem kom út árið 1999. Hann var búinn að skrifa handritið, sem mér leist mjög vel á – Hafsteinn er sérlega flinkur maður – en svo fékk hann enga peninga í verkefnið, þannig að ekkert hefur orðið af því. Og nú er ég búinn að nefna þetta með seinni tenginguna. Og hvaða lærdóm má draga af þessu öllu? Hugsanlega þann að ferill minn í íþróttum, og frægð í gegnum kvikmyndamiðilinn – allt þetta var drepið í fæðingu. Það fékk ekki að blómstra. Hefði ég haldið áfram í boltanum, léki ég hugsanlega með Huddersfield á Englandi, eða Galataserai í Tyrklandi (nefni bara tvö nöfn af handahófi); og hefði fjármagn fengist til að búa til bíómyndina eftir Hvíldardögum, væri ég á gangi upp og niður eftir rauða dreglinum í Feneyjum eða Los Angeles. Ég verð hins vegar, í fyrsta lagi, að láta mér nægja að fylgjast með Gylfa Þór og félögum „óbeint“ í gegnum sjónvarpið – ekki einu sinni af varamannabekknum (þar sem ég hefði getað verið, hefði ég bara, osfrv.) – og í öðru lagi verð ég að sætta mig við að sagan sem sýnd verður í Háskólabíói í kvöld er ekki eftir mig.

[1] Þetta er reyndar ekki rétt: ég var búinn að nefna seinni tenginguna, ég sá það þegar ég las þetta yfir.