5. september 2017 (aukafærsla)

Tvær spurningar leituðu á mig þegar ég var í mínum hefðbundna constitutional í dag, í einum af skógum Reykjavíkur, í nágrenni kirkjugarðs. Ég hlýt að hafa verið að hugsa eitthvað á þeim nótum að ég gæti lent í einhverju á göngu minni, einhverju sem hefði ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Eflaust hafa þær hugsanir mínar stjórnast af nálægðinni við kirkjugarðinn, þar sem einmitt hvílir svo margt fólk sem á sinni tíð lenti í einhverju, jafnvel einhverju sem varð til þess að það hóf sína hvíld löngu áður en til stóð. Í því ljósi er aftur á móti frekar einkennilegt að þessar tvær fyrrnefndu spurningar hafi leitað á mig, en þær voru þessar: Þegar á mann er ráðist, eru þá réttu viðbrögðin þau að koma sjálfum sér til varnar? Á maður ekki frekar að taka þátt í árásinni?