6. september 2017

Tónlistarmennirnir hrynja niður einn af öðrum. Arthur Blythe í mars, 76 ára; Walter Becker um daginn, ekki nema 67 ára gamall; Jaki Liebezeit í janúar; og núna í gær, félagi Jakis í Can, hinn magnaði Holger Czukay, að vísu orðinn 79 ára. Af hverju er verið að taka frá okkur alla þessa músíkanta? Hver verður næstur? Verð ég næstur? Ég komst nefnilega að því í gær, þegar ég fór í Tónastöðina til að kaupa músíknámsbækur fyrir píanónemann á heimilinu, að í mér blundar tónlistarmaður (rétt eins og í ónefndnum manni blundar fól). Ég horfði á bassagítarana sem héngu á veggnum, vinstra megin við gítarana, og ég hugsaði: Ég myndi vilja eiga svona Gretsch-bassa. Og ég fór yfir nokkrar bassalínur í huganum, á meðan ég beið eftir afgreiðslu. Svo þekkti ég þann sem afgreiddi mig. Sá maður þekkti systur mína þegar þau voru börn/unglingar, hann hafði komið inn á heimili foreldra minna (þegar ég var sautján eða átján), og séð kontrabassann sem bróðir systur minnar, moi, átti á þeim tíma, og nú rifjaði hann þetta upp: „Ég man eftir kontrabassanum þínum,“ sagði hann. „Ég sá hann.“ Og ég mundi eftir honum líka. Ekki löngu eftir að þessi maður (sem afgreiddi mig í gær) sá þennan tékkneska „verksmiðjubassa“ á heimili okkar systkinanna brotnaði bassinn: systir mín opnaði skápinn sem hann var geymdur í (hvað var hann að gera þar?), og þá datt bassinn í gólfið, og hann hálsbrotnaði. Ég lét líma hann saman, en seldi hann svo stuttu síðar, orðinn afhuga kontrabassanáminu, enda kominn með rafmagnsbassa í hendurnar. Það voru mistök. Og það voru líka mistök að mæna svona á Gretsch-bassann á búðarveggnum í gær og hugsa um að mig langaði í svoleiðis; ég ætti miklu frekar að fá mér kontrabassa. Ég myndi passa mig mjög vel á að geyma hann ekki inni í skáp að þessu sinni, að minnsta kosti taka hann út úr skápnum þegar systir mín kæmi í heimsókn og færi að opna skápana. En þetta var útúrdúr. Núna er Holger Czukay farinn. Ég man fyrst eftir honum úr Pop og Bravo-blöðunum. Andlitin á Can-mönnum voru ógnvekjandi á þeim tíma; ég lagði aldrei í að kynna mér tónlist þeirra. (Ég ætla þó ekki að ljóstra því upp hvað ég hlustaði á í staðinn.) Þessa dagana er mikið talað um „tímalausa snilld“, og til þess að vera ekki öðruvísi en aðrir hvað það varðar, þá ætla ég að ljúka þessum minningarorðum mínum um Holger Czukay með eftirfarandi tóndæmi:

En svo er það gærdagurinn. Það náðist að horfa á fótbolta og fara í bíó. Og hvorutveggja var algerlega stöngin inn, þótt ekki hefði það verið þannig sem Gylfi skoraði mörkin sín. (Það munaði samt litlu að þriðja ísl. markið yrði til með „stönginni inn“.) Undir trénu er virkilega fín mynd. Ég þori ekki að nota orð eins og „hugsanlega besta íslenska kvikmynd í svo og svo langan tíma“, eða „sigur fyrir leikstjórann og handritshöfund“, eitthvað svoleiðis; en þetta er absólútamente mynd til að sjá aftur hið fyrsta. Við ræddum svolítið í eftirpartíinu um að eitt ákveðið „örlagaatriði“ í myndinni minnti allverulega á eina söguna í mynd argentíska leikstjórans Damiens Szifron, Trylltum sögum (Relatos salvajes); en einhver af „okkur“ sem ræddum þennan „aðkallandi samanburð“ afgreiddi Undir trés-atriðið sem skemmtilegan „reffa“ í mynd Szifrons – og ég var alveg sammála því – auk þess sem Huldar Breiðfjörð, handritshöfundur myndarinnar í gær (ásamt Hadda) sagði mér að þeir hefðu skrifað myndina áður en Trylltar sögur komu í bíó, og ég er alveg maður til að trúa því. Enda skiptir ekki máli hvort atriðið er referens í aðra mynd; þessi sena er algerlega mögnuð, bæði í leik og útfærslu, og hvernig sagan byggir hana upp. Auk þess sem hún sjálf, og allt það sem liggur undir í Undir trénu, er fóðruð af gömlum minnum, bæði úr íslenskum fornsögum og erlendum kvikmyndum; en alltaf samt með fókus á að vera sitt eigið verk, og eitthvað nýtt. Sem ég held að þessi mynd sé: eitthvað nýtt. Ég hef sjálfur einu sinni skrifað um húsfund í fjölbýlishúsi – það er reyndar efni sem allir ættu að spreyta sig á, jafnvel þótt þeir hafi aldrei farið á slíkan fund (sem ég hef varla gert sjálfur) – en húsfundurinn í Undir trénu er einstakt augnablik í kvikmyndasögunni, svo ég gerist ofur hátíðlegur. Það var líka hátíð í gær.