7. september 2017

Í raun ættu allir dagar að rísa við tónlist Holgers Czukay.

En talandi um músík, þá sé ég að Bókmenntahátíð í Reykjavík hefur ráðið til sín hljómsveit með nafninu Royal til að spila á svokölluðu bókaballi í lok hátíðar. Það hljómar eins og standi til að efna til slagsmála á ballinu. Ef ég fer á ballið, þá verður það svo sannarlega ekki til að dansa; ég mun fara til að snapa fæting. Við undirleik Royal. En það er ekki bara Bókmenntahátíð sem efnir til dansæfinga. Smekkleysa sm. ehf. hefur blásið til einnar slíkrar í dag, í Þjóðarbókhlöðunni. Þar verður að vísu ekki dansað, en alveg örugglega slegist; þetta er opnun sýningar á ýmsum minjum úr 30 (að vísu 31) ára sögu fyrirtækisins; það verður upplestur úr útgefnum bókum Smekkleysu, og kannski óútgefinni bók; það verður boðið upp á léttar veitingar (til að mýkja upp fyrir slagsmálin); og, eins og fyrr segir: það verður slegist. Atburðurinn á að hefjast kl. 17 í dag. En aftur að Bókmenntahátíð. Ég missti af opnun hennar í gær, en mér var sagt, eftir á, að þar hefði verið gert opinbert – þetta var í Ráðhúsi Reykjavíkur, Das Rathaus – að bókmenntir væru ekki bókmenntir ef ekki fælist í þeim mannréttindabarátta. Kannski var best að ég komst ekki þarna í gær. En ég stefni á að fara á aðra viðburði, að minnsta kosti að hlusta á Fredrik Sjöberg tala um flugur.