1. október 2017

Eftir að hafa horft á spjall fjögurra „álitsgjafa“ í Silfri Egils í Ríkissjónvarpinu í hádeginu (sem ég held að hafi verið frekar fínt spjall, það fannst mér allavega), þá situr eftir ein spurning sem mig grunar að mun fleiri en ég hljóti að spyrja sig. Það virðist nefnilega sem hvert einasta orð sem Styrmir Gunnarsson lætur út úr sér merki það að maður eigi ALLS EKKI að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Hann hefur áður lýst skoðun sinni á þeim samtökum, eða því sem þau standa fyrir; hann hefur lýst þeim sem spilltum og ógeðslegum; og það var ekki að heyra í þættinum áðan að hann hefði mikla trú á að þessi ólánsflokkur geti á næstunni hjálpað til við að stuðla að betri pólitík á Íslandi, og þaðan af síður stuðlað að betra samfélagi. En samt – Styrmir talar ennþá um Sjálfstæðisflokkinn sem „sinn flokk“ (eða ég heyrði ekki betur). Mun Styrmir sem sagt ganga inn í kjörklefann 28. október nk. og krota X við D? Ég þekki ekki Styrmi, en ég þekki nokkra aðra „sjálfstæðismenn“, eða „-fólk“, sem mig grunar líka að muni eyða sínu næsta X-i á D, þrátt fyrir að framáfólk flokksins sé ítrekað staðið að lygum og óheiðarleika. Er þetta ekki ein helsta meinsemdin í hinu staðnaða pólitíska lífi á landi voru? Að fólk sem hefur einu sinni horft upp eftir veggjum Valhallar við Háaleitisbraut með lotningu sjái ekki önnur hús? Ég heyrði um daginn spjall við Hildi Sverrisdóttur, einn þeirra Sjálfstæðismanna sem hröðuðu sér út af fundinum áður en kom að því að heyra nöfnin í gögnunum; og í þessu spjalli klifaði hún á því að hún væri ekki „róbot“. Þegar hún undirbjó sig fyrir þáttinn (sem var í Ríkisútvarpinu, vel að merkja) hlýtur að hafa hvarflað að henni sú hugsun að ef til vill væri hún einhvers konar vélmenni, fyrst henni fannst hún þurfa að nefna það endurtekið og ítrekað að hún væri það ekki. Þetta er allt mjög skrítið. Og þetta hlýtur að enda með því að maður spili lag með The Pogues og The Dubliners (sem hefur þó alls ekkert með vélmennin í Valhöll að gera).