11. október 2017

„… en þú ert ekkert hræddur við að segja of mikið? Of oft?“

„Ég veit ekki hvernig mér ætti að takast það. Ég hef ekkert að segja. Það er frekar að ég hafi tilhneigingu til að segja of lítið.“

„En of oft?“

„Og of oft, já.“

Samtalið á sér stað í skóginum nálægt flugvellinum.

Og of oft? Heyrði ég rétt? Þetta er ábyggilega einhver verst formaða setning íslenskrar tungu frá því íslensk tunga varð til.“

„Varð til? Hvenær varð hún til?“

„Þegar Þórbergur samdi kvæðið um Seltjarnarnesið.“

Flugvél býr sig undir að hafa sig á loft á flugbrautinni rétt hjá – sá undirbúningur hljómar (og lyktar) nánast eins og mótmæli við fullyrðingunni um Þórberg.

„Já. Ég var reyndar að hugsa um það í gær að láta fólk (lesendur þessa texta) vita hvað rússneska orðið mojsna þýðir. Þetta er ábyggilega ekki rétt stafsett hjá mér, en ég komst að því í gær hvað þetta orð á rússnesku þýðir; ég er nefnilega búinn að heyra það sagt svo oft þegar ég hlusta á rússnesku talaða, núna síðast þegar ég heyrði á tal rússnesks viðskiptamanns á veitingastað í ónefndri borg; hann sat við borðið, einn síns liðs, með kaffibolla fyrir framan sig, og talaði í farsímann sinn viðstöðulaust, ábyggilega í hálftíma, þrjú korter; og mér fannst beinlínis grunsamlegt hversu oft hann sagði orðið mojsna (eða hvernig sem það er skrifað). Og ég hugsaði með sjálfum mér (því varla hugsaði ég það með einhverjum öðrum) að mojsna hlyti að vera eitthvert mjög mikilvægt orð í viðskiptaheiminum rússneska (þótt ekki væri þessi maður, og heldur ekki ég, staddur á rússneskum veitingastað). En svo fékk ég að vita í gær – nei, það var í fyrradag – hvað orðið mojsna þýðir. Ég spurði Áslaugu að því, þegar ég fór á Vesturvallagötuna til að ná í nýju bókina hennar með rússnesku smásögunum. (Meira um þá bók síðar.) Mojsna þýðir „má ég?“, eitthvað svoleiðis. Og í fyrrakvöld, þegar ég fylgdist með íslenska fótboltalandsliðinu vinna sér inn þátttökurétt í HM í Rússlandi á næsta ári, hugsaði ég sem svo (aftur með sjálfum mér): Þetta orð á eftir að nýtast Íslendingum vel þegar þeir flykkjast til Rússlands næsta sumar til að fylgjast með öllum Aronunum og Hannesunum tækla alla útlensku fótboltamennina í Sankti Pétursborg eða Murmansk. „Mojsna, por favor?“ Ég geri mér grein fyrir að rússneskukunnátta mín nær ekki yfir mikið fleiri orð en mojsna, en ég myndi samt skilja svar Rússanna (næsta sumar) við beiðnum Íslendinganna þegar þeir síðarnefndu segðu – og munu segja – mojsna í gríð og erg þegar þeir verða komnir til Pétursborgar eða Murmansk. Ef Rússarnir segja da, þá þýðir það ; en ef svarið verður njet, þá þýðir það nei.“

„En þú hafðir ekki spáð Íslendingunum sigri í leiknum í fyrradag, var það?“

„Nei, ég ákvað að hafa rangt fyrir mér. Auk þess sem enginn er spámaður í sínu eigin föðurlandi. Og þaðan af síður um sitt eigið föðurland.“

Svo víkja þeir talinu að nýjasta lagi Gunnars Þórðarsonar (við texta Hallgríms Helgasonar), en þá er hávaðinn í flugvélinni frá því áðan orðinn svo mikill (og lyktin eftir því) – það er eins og vélin nái ekki að lyfta sér af flugbrautinni – að það heyrast ekki orðaskil; orðin beinlínis drukkna í „samgöngulátunum“.

„En …“

„Það er nú meira …“

„Alger sm …“

Svo líður dagurinn.