14. október 2017 (aukafærsla)

„R. er að leggja lokahönd (svakalegt orð, lokahönd – hljómar eins og náðarhögg) á franska þýðingu á skáldsögunni Sögumaður. Við höfum talað svolítið saman um frönsku ljóðatilvitnanirnar í sögunni, sem eru aðallega í Apollinaire, Tristan Corbière og Blaise Cendrars, og R. fannst svolítið skrítið að móðir G. („ég“ afturábak, eins og hefur alltaf sagt sig sjálft, þótt G. sé langt frá því að vera ég) skuli hafa haft saumaklúbb inni á heimilinu á Lynghaga (þar sem foreldrar G. eiga heima – eða áttu; þau eru kannski dáin núna). R. finnst þetta ekki í karakter móðurinnar. Ég þurfti svolítið að verja þennan þátt í minni „persónusköpun“ – ég skil hvað R. á við, en bakka samt ekki með að móðir G. hafi getað haft saumaklúbb. (Ég spurði R. hvort orðið „saumaklúbbur“ væri til á frönsku, en auðvitað var svarið nei.) Það sem truflar mig hins vegar mest við athugasemdir R. er að í hans upplifun á bíómyndinni La Grande bouffe, myndinni sem segja má að sé ein af persónum bókarinnar um G., er að rúllukragabolur (eða -peysa) Michels Piccoli sé ekki bleikur. Við ræddum svolítið um litinn bleikan – bleikur er auðvitað ekki það sama og bleikur, osfrv. – en ég tel mig vera alveg vissan um að rúllukragabolur Michels hafi verið bleikur, sem rímar náttúrlega svo vel við svínshausinn sem hann hefur á loft í senunni þegar flutningabíllinn frá slátraranum kemur í húsið til þeirra – í hús Philippes. R. sá þetta samt á annan hátt; að bolurinn hafi ekki verið bleikur. Í lokasenu Michels Piccoli, rétt áður en hann deyr á svalahandriðinu, er hann klæddur hvítu kaðlaprjónspeysunni sem Marcello heitinn skildi eftir sig, og kannski er R. eitthvað að láta það trufla sína litaskynjun varðandi áðurnefnt vandamál. (Því vissulega er þetta vandamál, að höfundur og þýðandi bókar sjái ekki rúllukragabol í sama lit.) Ástæðan fyrir því að ég er að gera þetta að færslu (sem þar að auki er aukafærsla) – það er nákvæmlega engin raunveruleg þörf á þessu (er þörf á einhverju yfirhöfuð?) – er sú að ég hef notið aðstoðar við að skrifa færsluna frá aðstoðarmanni mínum Basil; og ekki bara það, heldur erum við Basil staddir „undir himninum“ – án þaks yfir höfuðið – við hlustum á lækjarnið í íslenskri sveit, og ég er alveg við það að láta eftir þeirri freistingu að kveikja í rúllaðri sígarettu – ég er hársbreidd frá því að skrá mig inn á facebook til að fleiri geti notið þess með okkur (okkur Basil) að við séum að „njóta lífsins“. En þar set ég mörkin. Ég virði skoðun Jóhannesar Kjarval á því öllu saman. Við Basil erum alls ekki að njóta lífsins. Við erum að fylgjast með skýjunum færa sig úr stað. Honum leiðist reyndar svo mikið „í vinnunni“ þetta augnablikið að hann er hlaupinn í áttina frá ánni – mig grunar að hann sé að gæla við þá hugmynd að músarrindill verði á vegi hans, nær húsinu. Það var þar (út um gluggann) sem hann sá rindil fyrr í morgun. Ég trúi því samt ekki upp á hann að hann hafi í hyggju að aflífa rindilinn.“

„Er þetta allt og sumt? Is that all? Þú hefur ekki hlustað á hádegisfréttirnar í Ríkisútvarpinu í dag?“

„Jú, ég gerði það. Og þess vegna er mér núna skapi næst að undirrita þessa tölvufærslu með eiginhandaráritun minni, helst tvisvar, ef ekki oftar, og fagna því um leið að Þjóðfylkingin (íslenska) hafi notað þá sömu aðferð í því skyni að mega bjóða fram til alþingis. En ég er ekki á leiðinni þangað (á alþingi) – ég er á leiðinni upp á Strút.“

„Sem er hvar? Strútur?“

„Bara hérna rétt hjá.“

ps. meðfylgjandi er ljósmynd frá því í dag af Litlafljóti, „burðarfljótinu“ í væntanlegri bók frá Bjarti um það hvernig á ekki að yrkja.