20. október 2017 (aukafærsla)

„Myndin í aðalfærslunni birtist án texta. Var það ætlunin?“

„Góð spurning. Nei, í raun var það ekki ætlunin. Ég hafði verið að hugsa um að setja við hana texta á borð við Hvað er innan í Sjálfstæðismanni? – ég var nefnilega með hugann við lagið eftir The Cramps, What´s inside a girl? – það hefur hljómað í höfðinu á mér eftir að Vilhjálmur Bjarnason fjárfestir tók tölvuna sína upp af borðinu og rauk út af fundinum – en svo fannst mér það ó-þarfi, auk þess að vera ó-sanngjarnt, bæði gagnvart Sjálfstæðismönnum og þeim sem kynnu að velta fyrir sér spurningunni.“

„Ó-sanngjarnt? Hvað áttu við?“

„Góð spurning. Þú átt við hvort mér finnist ó-sanngjarnt að Sjálfstæðismaður sé neyddur til að horfa inn á við – að hann gæti ó-vart gert sér grein fyrir því hvað er þar að finna? Séð sjálfan sig?“

„Góð spurning. Eða réttara sagt: góðar spurningar. Átti ég kannski við að …“

„Það er ég sem á að spyrja að þessu.“

„Já, auðvitað. En skiptir það einhverju máli?“

„Góð spurning.“

„Á ég ekki bara að spyrja þig?“

„Gjörðu svo vel.“

„Ég á við að aðrir en Sjálfstæðismenn muni kannski gera sér þann ó-leik að horfa inn í sortann sem býr innan í Sjálfstæðismanni. Að þessir „aðrir“ kunni að fyllast ó-hugnaði – jafnvel fara að hugsa ó-heppilegar hugsanir. Heldurðu að það geti verið?“

„Góð spurning.“

„Er það? Er það virkilega góð spurning?“

„Ég bara veit það ekki. Þú átt við hvort spurningin Er það virkilega góð spurning? sé góð spurning?“

„Góð spurning. Jú, það var það sem ég átti við.“

„En hvað með að setja bara The Cramps á fóninn?“

„Góð spurning.“

„Er það ekki bara?“

„Engin spurning.“