23. október 2017

„Upphaflega notaðirðu þessa bloggsíðu til að kynna skáldsögu sem þá var að koma út, var það ekki?“

„Sem þá kom út. Ég hélt þú vissir þetta.“

„Ég vissi þetta.“

„En spurðir samt?“

„En hvað með bókina sem núna er að koma út? Sem núna kemur út. Þú ætlar ekkert að …?“

„Það lengist reyndar alltaf í að hún komi út, þannig að ég ætla mér alltaf lengri og lengri tíma til að upphugsa kynningu á henni. Og kannski mun líða svo langur tími að ég verð búinn að gleyma þessu öllu þegar bókin loks kemur út.“

„Horfðirðu á Morðsögu í gær?“

„Ég gerði það. Það eru 40 ár síðan ég sá hana síðast.“

„Það eru líka 40 ár síðan ég sá hana síðast.“

„Sem sagt rúm – eða vel útilátin – mannsævi síðan við báðir sáum hana síðast.“

„En hvað er ævi svona bíómyndar löng? Var hún ennþá á lífi þegar Ríkissjónvarpið sýndi hana í gær?“

„Varla. En ég ætla sjálfur (og vil þakka Ríkissjónvarpinu fyrir að aðstoða mig við það) að gera mitt besta til að blása í hana örlitlu lífi – það verður í bók sem kemur út á næsta ári (ekki þessu). Sú bók segir frá atburðum sem gerðust árið 1977, og reyndar líka árið á undan því, sem var 1976.“

„Kannski ótímabært að vera að tala um það núna?“

„Já.“

„En er þetta morðsaga?“

„Hver?“

„Þessi bók sem segir frá atburðum sem gerðust árið 1977.“

„Það er í henni eitt morð. Og fleiri en eitt sjálfsmorð. Reyndar er eitt sjálfsmorðið misheppnað – en sjálfsmorð engu að síður.“

„Hvernig getur sjálfsmorð verið misheppnað?“

„Það getur það ekki. En í bókinni er það samt misheppnað. Slíkur er máttur skáldskaparins, eins og Guðbergur Bergsson, og eflaust fleiri myndu orða það.“

„Eins og þú varst sjálfur rétt í þessu að orða það.“

„Akkúrat: slíkur er máttur skáldskaparins. En talandi um annan skáldskap …“

„Þriðjungur íslensku þjóðarinnar sá þessa mynd í bíó á sínum tíma.“

Morðsögu?“

„Já.“

„Sá tími var líka tími þeirrar þjóðar sem þá var. En nú að hinum skáldskapnum. Ég hefi fengið nokkrar bækur í hendurnar á síðustu vikum.“

„Ekki þó morðsögur?“

Almennur hlátur.

„Jú, auðvitað eru í þeim einhver morð, en ekki samt á sama hátt og í væntanlegri morðsögu íslensks morðsöguhöfundar sem ég heyrði lesið upp úr fyrir nokkrum vikum – það var á bókmenntahátíðinni í Iðnó. Þar endaði fyrsti kaflinn á því að lík kom undan snjónum.“

„Bara eins og krónurnar sem koma undan snjónum?“

„Já, er það ekki? Stundum koma krónur undan snjónum, og stundum lík. Í þessari óútgefnu bók sem ég heyrði lesið upp úr í Iðnó var það lík sem kom undan snjónum. Það gerðist í lok fyrsta kaflans. Þannig að ég geri ráð fyrir að aðrir kaflar bókarinnar, frá og með númer tvö, muni segja frá því hver kom líkinu fyrir undir snjónum – en kannski snjóaði ofan á líkið eftir að það var drepið? Hugsanlega var líkið löngu dautt þegar það var drepið. Kannski líka sá sem drap það? (Þessi „lestur“ minn á óútkominni „Iðnó-bók“ hlýtur að vera undir áhrifum frá öðrum lestri – lestri á nýjustu Booker-verðlaunabókinni, Lincoln in the bardo – og nú tek ég fram að almennt forðast ég eins og eldinn – hinn heita eld – að lesa Booker-verðlaunabækur strax og þær eru orðnar Booker-verðlaunabækur – ég bara stóðst ekki freistinguna að þessu sinni – fékk eintak lánað á Landsbókasafninu, og sé ekki eftir því.)“

„Við munum fylgjast með þegar bókin kemur út.“

„Áttu við þegar „Iðnó-bókin“ kemur út?“

„Einmitt. Við verðum að komast að þessu.“

„Hverju?“

„Já, þú meinar. Nú er ég búinn að steingleyma því.“

„En hvaða bækur aðrar ætlaðirðu að tala um?“

„Ég er líka búinn að gleyma því. Við tölum allt of mikið. Nei, ég er ekkert búinn að gleyma því. Ég ætlaði að tala um Ko Un ljóðasafnið sem var að koma út í þýðingu Gyrðis Elíassonar. Sorgin í fyrstu persónu. Ko Un er enn eitt ljóðskáld heimsins sem maður kynnist í gegnum þýðingar Gyrðis. Ég er ekki frá því að þarna sé komið mitt „uppáhalds“.“

„Áttu þá við Ko Un?“

„Já. Og nú er ég ekki að grínast. Það er hugsanlegt að eitthvert smá grín hafi fylgt með í „lestri“ mínum á „snjólíkinu“ sem lesið var um í Iðnó; en hér (í tilviki Ko Un) er ekkert grín á ferðinni, nema auðvitað húmorinn sem býr í ljóðum Ko Un. (Maður treystir sér ekki til að beygja nafnið Ko Un. Í ljóðum Kos Un hljómar ekki vel. En maður lifandi (vs. líkið í snjónum í lok fyrsta kafla „Iðnó-morðsögunnar“) – hér er fínt ljóðskáld á ferðinni. Og ekki spillir formáli þýðandans, þar sem hann dregur upp „lifandi“ fyrstuhandar mynd af hinu suður-kóreska skáldi frá hóteli í Lillehammer, Norge – þeir voru samtímis á hótelinu, þýðandinn og ljóðskáldið, án þess þó að tala saman; en myndin sem birtist af þeim síðarnefnda í formálanum segir mun meira en hundrað eða þúsund orð (þótt auðvitað sé um að ræða svolitla mótsögn hér, því myndin af Ko Un er vissulega dregin upp með orðum). En vegna þess að ég er sjálfur maður fárra orða …“

„Já, er það?“

„… þá ætla ég að láta staðar numið hér, en benda þeim mun ákafar á þessa nýútkomnu bók frá Dimmu, Sorgina í fyrstu persónu.“

„Voru ekki að koma út fleiri þýðingar frá Dimmu?“

„Jú, ég var einmitt að lesa eina þeirra: Síðasta úlfinn eftir László Krasznahorkai. En meira um þá bók síðar. Og meira um fleiri bækur fljótlega, t.d. Heilaskurðaðgerðina eftir Dag Hjartarson. Og Stór olíuskip eftir Jónas Reyni Gunnarsson. Og rússnesku smásögurnar sem Áslaug Agnarsdóttir þýddi. Ég þarf að fara að gefa aðstoðarmanni mínum vatn að drekka. Blátt vatn – hann lítur ekki við öðru.“

„En hvað með Lincoln-bókina sem þú minntist á?“

„Var það ég sem minntist á hana – varst það ekki þú?“

„Getur verið. En það er bók sem þarf að tala um.“

„Helst þegar búið er að lesa hana.“

„Þú ert sem sagt ekki búinn með hana?“

„Nei, ertu ekki kominn á bls. 200 og eitthvað?“

„Jú. Rúmlega 100 eftir.“

„En það var ansi gaman að koma inn í plötubúðina í Morðsögu í gærkvöldi (svo talið sé leitt að öðru).“

„Algerlega. Ég er ekki ennþá kominn út úr henni.“