9. október 2017

Fyrsta kosningaspá Næsta kafla (í aðdraganda alþingiskosninga 2017): Sjálfstæðisflokkur 28,5%, Vinstri græn 26%, Alþýðufylkingin 0,02% – ég treysti mér ekki enn sem komið er að segja til um úrslit hjá öðrum flokkum, en atkvæðin munu skiptast nokkuð jafnt á milli þeirra, þótt ég búist ekki við að Dögun fái mörg atkvæði. Björt framtíð fær þó líklega eitthvað á bilinu 2 til 3% atkvæða, og Framsóknarflokkur (eða það sem eftir er af honum) 7,3%. Ætli Samfylkingin fái ekki 12,5%, nú þegar Guðmundur Andri er allt í einu hættur að skrifa pistla í Fréttablaðið. Og Píratar – ég treysti mér ekki alveg til að spá til um þá. Ég giska á 13% (því enn – sem á kannski eftir að breytast, því ég er á „fleygiferð“, eins og ég heyrði í Ríkisútvarpinu að Morgunblaðið hefði sagt um fylgi flokkanna; að fylgið væri á fleygiferð – því enn stendur hugur minn til þess að kjósa þá, Píratana – en eins og ég sagði: það gæti breyst). Miðflokkur Sigmundar Davíðs og nafna míns Gunnars fær 24 atkvæði. (Þegar maður hugsar um Miðflokkinn verður manni óhjákvæmilega hugsað til hljómplötunnar sem Smekkleysa gaf út fyrir mörgum árum, ef ekki áratugum, með hljómsveitinni Exem. Mig minnir að platan hafi kallast Kjötflykkið eða Kjötsneiðin – það hafði að minnsta kosti eitthvað með kjöt að gera. En „það sagt“, eins og ég heyrði konu segja í Ríkisútvarpinu nýlega, eða hugsanlega Ríkissjónvarpinu, þá gæti ég vel trúað að Miðflokkurinn fái þessi 20 atkvæði plús sem ég spáði honum, jafnvel 20% atkvæða, ef því er að skipta.) Eitthvað er ég samt hræddur um að ég hafi verið aðeins of örlátur á prósenturnar í þessari spá minni. Ég treysti mér ekki í augnablikinu til að leggja þær saman, en mér kæmi ekki á óvart að þær væru orðnar eitthvað fleiri en 100. En höfum í huga að auðvitað er þetta bara fyrsta spá – það koma fleiri þegar nær dregur kosningum. Staðan er allavega þessi í augnablikinu: Sjálfstæðisflokkur fær flest atkvæði, og Flokkur fólksins (sem ég gleymdi að nefna hér að ofan) fær næstflest atkvæði, eða eitthvað á bilinu 27 til 28%. Þetta myndi þýða að Sjálfstæðisflokkur og Flokkur fólksins gætu myndað saman ríkisstjórn. Sem væri í raun eðlilegt, því þá gætu „vinstri“ flokkarnir haldið áfram í sínu, eins og ekkert hefði í skorist. En þá að öðru (og áður en kemur að því ætla ég líka að spá fyrir um úrslit fótboltaleiksins í kvöld. Ég spái jafntefli, 1 – 1 eða 0 – 0. Ég vona samt að Ísland vinni Kosovó – ég er áhugamaður um Ísland). Og þá loks þetta „annað“. Eins og mig grunaði (og vissi reyndar), þá var engin tölva „fyrir mig“ í London, þar sem ég dvaldi í vikunni sem leið. Ég fékk að vísu svolítil afnot af tölvu annars aðila sem bjó á hótelherberginu, en þau afnot, eða sá tími sem maður ætlar sér, eða gefur sér, þegar maður er á „lánstíma“, dugði einhvern veginn ekki til að ég færi að „beita mér“ á nokkurn hátt, eða læsi af einhverju viti það sem ég fletti upp í tölvunni. Ég einbeitti mér frekar að því að lesa dagblöðin sem fengust gefins í móttökunni – og þar las ég ýmislegt. Ég las svo margt í blöðunum að ég er búinn að gleyma því öllu. Allt annað frá þessum dögum man ég þó, t.d. orð leigubílstjórans um að ég hefði rétt misst af Karli Bretaprinsi þar sem hann var að koma í Buckinghamhöll til að snæða kvöldverðinn með fjölskyldunni – það hefði ekki munað nema nokkrum sekúndum að við, ég og leigubílstjórinn, hefðum séð Karl koma í höllina; hann kæmi þangað alltaf á slaginu fimm). Annað af því sem ég man frá síðustu dögum er að ég fékk tölvupóst sendan frá starfsbróður mínum í greininni, um að ég hefði heyrt rétt textann í Allianz-auglýsingunni sem ég minntist á fyrir stuttu; hann, starfsbróðirinn, meira að segja sendi mér sjónvarpsauglýsingu á tölvutæku formi þessu til staðfestingar (sem ég náði að skoða í „lánstölvunni“ á hótelherberginu). Lesendum til upprifjunar var textinn í Allianz-auglýsingunni svona: „Því miður vitum við ekki hvenær lífið tekur enda.“ Ég hafði haft einhverjar áhyggjur af því að ég færi ekki rétt með textann þegar ég nefndi hann um daginn, ekki síst vegna þess að þegar ég heyrði hann hafði ég snúið baki í sjónvarpstækið; en nú er sá vafi úr sögunni – ég heyrði rétt. Ég ætla að enda þetta á þeim upplitsdjörfu nótum. Og hafa smá músík – en bara smá: