17. nóvember 2017

 

„Ný íslensk fyndni?“

„Mig grunar að þetta muni raðast í þann flokk, já.“

„En byggt á þeirri gömlu?“

„Á þeirri gömlu, já – það orðalag á vel við.“

„Og hvað var svona fyndið?“

„Ég fór í fiskbúðina í gær. Viðskiptavinurinn á undan mér (nr. 0566 – ég var nr. 0567) var maður sem ég þekki. Við ræddum um blokkarlifnað – það að búa í blokk.“

„Er eitthvað að því?“

„Brandarinn er ekki búinn – bíddu aðeins. Þegar hann, maðurinn sem ég þekki, hafði fengið sinn fisk afgreiddan, sagðist hann þurfa að flýta sér út í bíl, því 97 ára gömul móðir hans biði í bílnum. Mér datt strax í hug að biðja hann að flýta sér enn meira en hann virtist vera að gera – móðir hans, jafngömul og hann sagði að hún væri, gæti þegar verið dáin í bílnum. En ég hélt aftur af mér. Ég reyni að vera kurteis maður og háttvís (þótt mér takist það ekki alltaf). En jæja, svo kveðjumst við, og maðurinn fer út í bíl til móður sinnar – ég, aftur móti, hóf mín viðskipti við fisksölumanninn. Þegar ég er um það bil að ganga frá þeim viðskiptum kemur kunningi minn aftur inn í búðina, ekki alveg eins afslappaður og hann var þegar við töluðum saman rétt áður; og hann sagði mér (og reyndar öllum hinum í búðinni) að móðir sín væri dáin úti í bíl. Hún varð sem sagt 97 ára gömul, sem er ansi hár aldur.“