2. nóvember 2017

„Grein Hermanns Stefánssonar í Fréttablaði dagsins í dag fannst mér svo áhugaverð að ég fékk leyfi hjá eiganda annarrar tölvu en minnar til að kíkja aðeins á facebook – bara svona rétt aðeins, kannski í tvær eða þrjár mínútur (hugsanlega fjórar, í mesta lagi fimm). Burtséð frá hinni „skáldlegu“ forvitni sem ég þjáist af langaði mig hálft í hvoru til að ganga úr skugga um að ég væri alveg örugglega ekki skráður inn á apparatið facebook, því einu sinni – það var fyrir nokkrum árum – prófaði ég (í einhverri augnabliksvitleysu) að skrá mig þar inn, en hætti við sirka fimm mínútum eftir innskráningu, því mér bárust svo margar vinabeiðnir frá fólki sem mig langaði frekar til að eiga sem vini í „ketheimum“ en netheimum; og ég allt að því tók á rás í burtu frá tölvunni, rétt eins og tollvörðurinn Rousseau hljóp í átt frá striganum þegar hann hafði málað á hann ljónið ógurlega.“

„Og hvað?“

„Ég rakst á alnafna minn á facebook. Það er einhver „aðili“ skráður á facebook sem hefur sama nafn og ég, skírnar- og föðurnafn. En er þó alveg örugglega ekki ég, ef eitthvað er að marka myndina af honum. Þannig að þetta er ekki „ég hinnar gömlu skráningar minnar“.“

„En hvar ert „þú hinnar gömlu skráningar“?“

„Í felum bakvið facebook.“

„En stelst samt til að skoða?“

„Bara í tvær, þrjár mínútur. Hugsanlega fjórar eða fimm.“

„En nógu margar til að …?“

„Já. Til að sjá að ég er ekki skráður þar.“

„Nema að nafninu til.“

„Viltu að ég breyti um nafn?“

„Hefur það ekki alltaf staðið til?“

„Jú. Þegar ég var ellefu eða tólf langaði mig til að heita Sigurvin. En núna er ég búinn að nota það nafn í bók, þannig að þegar sú bók kemur út, þá verður það að vera undir einhverju öðru nafni en Sigurvin, því annars gæti efni hennar verið túlkað sem sjálfsævisögulegt.“

„Sem hún er, er það ekki? Eða verður?“

„Jú, reyndar. Sjálfsævisaga, en ekki mín eigin.“